Erlent

Handtekinn fyrir að búa í Disney World

Samúel Karl Ólason skrifar
Disney World hefur skemmtigarðinum í Flórída var lokað í mars.
Disney World hefur skemmtigarðinum í Flórída var lokað í mars. AP/Joe Burbank

Lögreglumenn í Flórída handtóku í vikunni mann sem hafði komið sér fyrir á eyju í Disney World og ætlaði að búa þar um tíma en Disney World er lokað vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar. Maðurinn lýsti eyjunni sem „paradís“ og hafði í raun búið á eyjunni frá því á mánudaginn eða þriðjudaginn.

Samkvæmt AP fréttaveitunni sagðist maðurinn hafa ætlað að vera á eyjunni í viku.

Hinn 42 ára gamli Richard McGuire sagðist ekki hafa vitað að um einkaland væri að ræða, þrátt fyrir fjölmörg skilti þar sem það kemur fram.

Starfsmaður Disney hafði séð McGuire notast við bát fyrirtækisins og var lögregla kölluð til að leita að honum. McGuire sagðist ekki hafa verið var við leitina, þrátt fyrir að fjölmargir lögreglumenn hafi tekið þátt í henni og gengið um eyjuna og sömuleiðis leitað úr lofti á þyrlu. McGuire sagðist hafa verið sofandi og því hafi hann ekki orðið var við umstangið.

Ekki liggur fyrir hve langan tíma leitin tók en McGuire fannst sama dag og áðurnefndur starfsmaður tilkynnti hann til lögreglu.

USA Today segir McGuire ekki vera fyrstan til að laumast út í Disney World frá því garðinum var lokað í mars. McGuire hefur verið bannaður í Disney World og má aldrei snúa þangað aftur, jafnvel þó garðurinn hafi verið opnaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×