Körfubolti

Finnur Freyr hættur sem þjálfari Horsens og á leið heim

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Finnur sem allt vinnur“ er á leið heim til Íslands. Sjáum við hann í Domino´s deildinni á næstu leiktíð?
„Finnur sem allt vinnur“ er á leið heim til Íslands. Sjáum við hann í Domino´s deildinni á næstu leiktíð? Vísir/Horsens

Finnur Freyr Stefánsson hefur ákveðið að segja upp sem þjálfara hjá danska körfuknattleiksfélaginu Horsens. Finnur Freyr tók við liðinu fyrir síðustu leiktíð og kom liðinu til að mynda í úrslit danska bikarsins.

Þar áður gerði Finnur Freyr garðinn frægan með KR er liðið varð Íslandsmeistari fimm ár í röð undir hans stjórn. Þá hefur hann verið í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins.

Horsens tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í dag en ákvörðunina tekur Finnur að hluta til vegna ástandsins sem nú ríkir sökum kórónufaraldursins.

„Það er með mikill sorg sem ég segi frá því að ég hef ákveðið að yfirgefa Danmörku og snúa aftur til Íslands. Vegna mikillar óvissu sökum kórónufaraldursins þá fannst okkur óþægilegt að vera svona langt frá fjölskyldum okkar, sérstalega þar sem við eigum tvö ung börn," er haft eftir Finni í Facebook-færslu félagsins.

„Við munum horfa til baka á tíma okkar hjá Horsens með bros á vör. Hlýjar móttökur gerðu flutningana mun auðveldari. Við viljum þakka öllum fyrir hjálpina og þann tíma sem við eyddum saman. Horsens er í góðum höndum þar sem liðið er með góðan kjarna leikmanna, metnaðarfulla stjórn og bestu stuðningsmenn Danmerkur,“ segir Finnur einnig.

Þó Finnur hafi verið samningsbundinn Horsens áfram þá segist félagið skilja ákvörðun hans og ekki vilja standa í vegi fyrir honum. Það þakkar honum jafnframt fyrir vel unnin störf og hrósar honum fyrir vel unnin störf, bæði innan sem utan vallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×