Enski boltinn

Guardiola: Við vildum spila gegn Everton

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pep Guardiola á hliðarlínunni.
Pep Guardiola á hliðarlínunni. vísir/Getty

Manchester City verður án fimm lykilmanna í stórleiknum gegn Chelsea á morgun að sögn Pep Guardiola.

Leik Man City og Everton síðastliðinn mánudag var frestað í kjölfar þess að þrír leikmenn City reyndust smitaðir af kórónuveirunni, til viðbótar við Kyle Walker og Gabriel Jesus sem greindust á jóladag.

Ákvörðunin um frestunina hefur verið gagnrýnd harkalega af öðrum félögum úrvalsdeildarinnar þar sem skýrt er í reglum að hafi lið fjórtán leikfæra leikmenn skuli leikið.

„Við vildum spila leikinn að morgni leikdags en þegar fleiri fóru að greinast jákvæðir þá létum við forráðamenn deildarinnar vita af stöðunni,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær.

Enska úrvalsdeildin tók því ákvörðun um að fresta leiknum af ótta við hópsmit í herbúðum Man City. Guardiola segir að Man City hafi ekki krafist þess að leiknum skyldi frestað en segir það þó hafa verið skynsama ákvörðun.

„Ég hringdi sjálfur í Carlo Ancelotti til að útskýra stöðuna því við höfðum verið í samskiptum vegna þess að við höfðum áhyggjur.“

„Við eigum nóg af leikmönnum og við höfum akademíu með fullt af leikmönnum,“ segir Guardiola en hann segir að nú séu fimm lykilmenn smitaðir og verði því frá næstu dagana.

„Ég held að enska úrvalsdeildin vilji að við nafngreinum þá ekki en þið munuð komast að því á morgun,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×