Enski boltinn

Solskjær vill losna við sex leikmenn í janúar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jesse Lingard og Brandon Williams gætu verið á förum frá Manchester United.
Jesse Lingard og Brandon Williams gætu verið á förum frá Manchester United. getty/Alex Grimm

Ole Gunnar Solskjær vill hreinsa til í leikmannahópi Manchester United og losa sig við sex leikmenn í þessum mánuði.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Sergio Romero, Phil Jones, Marcos Rojo, Jesse Lingard, Brandon Williams og Daniel James. Daily Mail greinir frá því að leikmennirnir verði annað hvort seldir eða lánaðir í burtu.

West Brom hefur áhuga á Jones og Rojo er á óskalista Newcastle. Varnarmennirnir hafa ekkert spilað með United á þessu tímabili. Lingard, sem framlengdi samning sinn við United á dögunum, hefur verið orðaður við Tottenham.

Líklegt þykir að Williams og James verði lánaðir en þeir hafa verið sparlega notaðir á tímabilinu. Sá fyrrnefndi hefur verið orðaður við Southampton, Newcastle og Bayer Leverkusen í Þýskalandi.

Eftir sigurinn á Aston Villa á nýársdag staðfesti Solskjær að kantmaðurinn Amad Diallo myndi koma til United í þessum mánuði. Félagið gekk á kaupunum á Fílbeinsstrendingnum frá Atalanta í október.

United er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með jafn mörg stig og topplið Liverpool. United tekur á móti grönnum sínum í Manchester City í undanúrslitum enska deildabikarsins á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×