Lífið samstarf

Aðeins meira „bling“ nauðsynlegt í Kryddsíldina þetta árið

Garðheimar
Blómameistararnir Þórdís Zophía og Eva Sólveig Þórisdóttir skreyttu Kryddsíldina á Stöð 2 á gamlársdag.
Blómameistararnir Þórdís Zophía og Eva Sólveig Þórisdóttir skreyttu Kryddsíldina á Stöð 2 á gamlársdag. Stöð 2

Glimmer og glys setti svip á Kryddsíldina á Stöð 2 á gamlársdag en blómaskreytingarnar voru í þaulvönum höndum blómaskreyta Garðheima.

Blómameistararnir Þórdís Zophía og Eva Sólveig Þórisdóttir eiga veg og vanda að skreytingunum sem glöddu augað í Kryddsíldinni á Stöð 2. Jóna Björk Gísladóttir, markaðsstjóri hjá Garðheimum segir fá tækifæri hafa gefist þetta árið til að útbúa stórveisluskreytingar og því hafi strax verið ákveðið að þemað yrði litríkt og flott.

„Við þurfum að enda þetta með stæl. Við eigum það öll skilið að enda þetta skrautlega ár á skrautlegri Kryddsíld og því ákváðum við að hafa skreytingarnar litríkari en oft áður, aðeins meira „bling“,“ segir Jóna. Fersk blóm voru notuð í skreytingarnar og þurrkuð strá, í bland við áramótaglimmer. Þetta er í fyrsta skipti sem Garðheimar taka að sér að skreyta Kryddsíldina.

„Þetta er heilmikið verkefni og þær Þórdís og Eva hafa unnið að þessu síðan fyrir jól. Hluta skreytinganna var hægt að vinna fyrir fram en mesta vinnan fór fram á staðnum. Þær voru á fullu hér síðustu dagana en þær sáu einnig um skreytingarnar í Íþróttaannálinn,“ útskýrir Jóna. Þær fóru þó létt með verkefnið.

„Þær eru ýmsu vanar enda hafa þær tekið að sér skreytingar fyrir brúðkaup og árshátíðir og ýmsa viðburði, meðal annars fyrir erlend brúðhjón sem tjalda yfirleitt öllu til en blómaskreytingarnar í erlendu brúðkaupum eru á allt öðrum skala en við Íslendingar erum vanir,“ segir Jóna, verkefnið við Kryddsíldina hafi verið afar skemmtilegt. „Fyrir okkur blómaskreytana snýst Kryddsíldin um skreytingarnar, miklu frekar en það sem rætt er um í þættinum,“ segir hún sposk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×