Viðskipti innlent

Fimm skip kappkosta að finna loðnu á næstu tveimur vikum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Birkir Bárðarson fiskifræðingur er leiðangursstjóri.
Birkir Bárðarson fiskifræðingur er leiðangursstjóri. Egill Aðalsteinsson

Floti fimm skipa, þar af tveggja hafrannsóknaskipa, er að leggja úr höfn til víðtækrar loðnuleitar. Vonir eru bundnar við að niðurstöðurnar verði ávísun á tuttugu til þrjátíu milljarða króna loðnuvertíð á næstu vikum.

Það segir sitt um þá miklu hagsmuni sem eru í húfi að hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson eru bæði send í leiðangurinn, en myndir af brottför þeirra úr Hafnarfirði í dag voru sýndar í fréttum Stöðvar 2.

Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson siglir frá Hafnarfirði um tvöleytið í dag. Fjær er Árni Friðriksson að leggja frá bryggju.Egill Aðalsteinsson

Jafnframt leggja útgerðir fram þrjú skip; Ásgrím Halldórsson, Aðalstein Jónsson og grænlenska skipið Polar Amaroq, og verða þrír starfsmenn Hafrannsóknastofnunar um borð í hverju þeirra. Þetta virðist einskonar leiftursókn í leit að loðnunni.

„Já, já, það er rétt. Þetta er eins og við höfum í auknum mæli reynt að gera, það er að nota þá veðurglugga sem gefast með því að fara með miklu efforti á stuttum tíma,“ segir Birkir Bárðarson fiskifræðingur en hann stýrir leiðangrinum að þessu sinni úr landi.

Hafrannsóknaskipin tvö sigla rakleitt á Vestfjarðamið en veiðiskipin þrjú halda frá Austfjarðahöfnun og fylgir flotinn fyrirfram ákveðnum leitarferlum. Skipin munu skanna hafsvæðin út af landgrunnskantinum með öllu norðanverðu landinu, allt frá Vestfjörðum til Austfjarða, en fylgjast má með ferli skipanna á vef Hafrannsóknastofnunar.

Áætlaðir leitarferlar skipanna fimm.Hafrannsóknastofnun

Bara það að Hafrannsóknastofnun sé þegar búin að leggja til 22 þúsund tonna kvóta eftir mælingu í desember gefur ákveðin fyrirheit.

„Svo horfa menn líka til þess að í þessari mælingu okkar í desember þá vorum við að sjá fullorðna loðnu við ísröndina í Grænlandssundi. Þannig að þá svona vakna ákveðnar vonir um að eitthvað gæti legið undir ísnum. En það á bara eftir að koma í ljós.“

Innan sjávarútvegsins gera menn sér vonir um 300 þúsund tonna loðnuvertíð, sem gæti skilað 25 milljarða króna útflutningsverðmæti. Það byggja menn bæði á góðri mælingu ungviðis í fyrra ásamt því að talsvert fannst af loðnu fyrir áramót þrátt fyrir hafís.

Árni Friðriksson bakkar frá bryggju í dag. Höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar eru í litskrúðuga húsinu vinstra megin.Egill Aðalsteinsson

„Við mælum þó talsvert meira en í september.“

-Þannig að menn hafa tilefni til svona örlítið meiri bjartsýni?

„Já, vissulega. Já, já,“ svarar Birkir sem vonast til að myndin skýrist á næstu 1-2 vikum. Áætlað er að farið verði aftur til loðnuleitar í byrjun febrúar.

Það verður svo í kringum miðjan janúar sem búast má við tíðindum af niðurstöðum leiðangursins og hvort þjóðarbúið fái þá 20-30 milljarða króna lottóvinning í formi loðnuvertíðar eða kannski ekki neitt. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×