Enski boltinn

Trent tókst að tapa boltanum 38 sinnum á aðeins 77 mínútum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold talar við Jürgen Klopp í leiknum á móti Southampton í gær.
Trent Alexander-Arnold talar við Jürgen Klopp í leiknum á móti Southampton í gær. Getty/Andrew Powell

Trent Alexander-Arnold hefur átt mjög erfitt uppdráttar á þessu tímabili og bakvörðurinn er að koma illa út í tölfræðinni.

Það gengur lítið hjá Liverpool þessa dagana og þetta kristallast hvergi betur en í frammistöðu enska landsliðsbakvarðarins Trent Alexander-Arnold.

Það hefur verið mikið látið með Trent Alexander-Arnold á undanförnum árum. Strákurinn vann sér ungur sæti í Liverpool liðinu og var síðan kominn í hóp bestu bakvarða heims.

Það var útlit fyrir mjög bjarta framtíð hjá þessum strák sem hefur komið upp um unglingastarfið hjá Liverpool og er því sérstaklega vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Trent Alexander-Arnold var á dögunum valinn í lið ársins hjá FIFA eftir að hafa hjálpað Liverpool að vinna ensku deildina í fyrsta sinn í þrjátíu ár á síðasta tímabili.

Nú virðist öldin vera önnur hjá hinum 22 ára gamla Trent Alexander-Arnold sem er annað hvort alveg útkeyrður eða búinn að missa sjálfstraustið.

Liverpool liðið tapaði 1-0 á móti Southampton í gær þar sem sigurmarkið kom eftir mistök Alexander-Arnold. Alexander-Arnold átti síðan svo lélegan leik að Jürgen Klopp varð að taka hann af velli á 77. mínútu.

Þá hafði stráknum tekist að tapa boltanum 38 sinnum í leiknum. Hann spilaði í 77 mínútur og missti því boltann á tveggja mínútna fresti.

Sóknarleikur Liverpool hefur verið hálflíflaus að undanförnu og liðið hefur ekki skorað í meira en fjóra klukkutíma í ensku úrvalsdeildinni. Tveir markalausir leikir í röð og þrír leikir í röð án sigurs.

Það hefur ekki hjálpað til að Trent Alexander-Arnold er langt frá sínu besta. Bakverðir Liverpool hafa verið stoðsendingahæstu leikmenn liðsins og sóknin fer mikið í gegnum þá. Slök frammistaða Trent hefur því mikil áhrif.

Nú hafa knattspyrnusérfræðingar kallað eftir því að Klopp þurfi að gera eitthvað til að koma Trent Alexander-Arnold aftur í gírinn.

Klopp gæti tekið hann út úr liðinu og það verður að teljast líklegt eftir frammistöðuna í gær. Hvort að hann verði settur á bekkinn eða hvíldur alveg verður að koma í ljós.

Það er alla vega ljóst að strákurinn upplifði sannkallaða martröð í gær og spilar ekki mikið verr. Leiðin ætti því bara vera upp á við eftir þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×