Enski boltinn

Skilur ekki af hverju Hasenhüttl grét af gleði eftir sigurinn á Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ralph Hasenhüttl gat ekki leynt gleði sinni eftir sigur Southampton á Liverpool.
Ralph Hasenhüttl gat ekki leynt gleði sinni eftir sigur Southampton á Liverpool. getty/Adam Davy

Fabio Capello, fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins, AC Milan, Juventus og fleiri liða, furðar sig á viðbrögðum Ralphs Hasenhüttl, knattspyrnustjóra Southampton, eftir sigurinn á Liverpool, 1-0, á mánudaginn.

Hasenhüttl féll niður á hnén og grét gleðitárum eftir að lokaflautið gall. Þetta var í fyrsta sinn sem lið undir hans stjórn nær í stig gegn liði Jürgens Klopp.

Capello furðaði sig á fagnaðarlátum Austurríkismannsins eftir leikinn. „Ég skil ekki svona lagað,“ sagði hann á Sky Italia.

„Hann var í vinnunni. Það er allt í lagi að sýna smá tilfinningar en þetta var yfirdrifið. Af hverju í ósköpunum ferðu að gráta?“ spurðu Capello forviða.

Strákarnir hans Hasenhüttls hafa leikið vel á tímabilinu og eru í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Liverpool.

Hasenhüttl tók við Southampton af Mark Hughes í desember 2018. Hann var áður stjóri RB Leipzig í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×