Enski boltinn

Arsenal valdi Pépé fram yfir Zaha

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsenal keypti Nicolas Pépé en ekki Wilfried Zaha sumarið 2019.
Arsenal keypti Nicolas Pépé en ekki Wilfried Zaha sumarið 2019. getty/Stuart MacFarlane

Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace, segist hafa rætt við Unai Emery, þáverandi knattspyrnustjóra Arsenal, um möguleikann á að ganga í raðir félagsins í fyrra. Arsenal hafi hins vegar ákveðið að kaupa Nicolas Pépé.

Arsenal var meðal þeirra liða sem var Zaha var orðaður við fyrir síðasta tímabil og miðað við orð hans í hlaðvarpi Jamies Carragher höfðu Skytturnar áhuga á honum.

„Ég ræddi við Emery. Hann sagðist hafa séð mig spila og vissi að ég gæti breytt leikjum á einu augabragði. Hann sagðist vilja fá mig og ég sagðist vilja koma,“ sagði Zaha.

„Samskiptin voru hreinskiptin því ég spilaði gegn honum þegar hann var með Arsenal. Hann sá hvað ég gat gert, vinnusemi mína og hverju ég gæti bætt við liðið. En þetta var undir félaginu komið og það valdi Pépé framyfir mig.“

Arsenal keypti Pépé, félaga Zahas í landsliðsliði Fílabeinsstrandarinnar, frá Lille fyrir 72 milljónir punda. Hann er dýrasti leikmaður í sögu Arsenal en hefur ekki staðið undir væntingum á Emirates.

Zaha hefur leikið vel með Palace á þessu tímabili og skorað átta mörk í fimmtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×