Í fyrri tilkynningu ráðuneytisins sagði að sóttvarnalæknir hafi lagt fram þá breytingu að í stað núgildandi reglu sem heimilar fimm viðskiptavini á hverja tíu fermetra verslunar yrði gert ráð fyrir einum viðskiptavini á hverja fjóra fermetra. Hefði slík breyting falið í sér auknar takmarkanir á leyfilegum fjölda í verslunum. Hið rétta er að til stendur að halda reglum sem varða verslanir óbreyttum.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, hafði áður lýst furðu sinni yfir því í samtali við fréttastofu að til stæði að þrengja að verslunum og sagðist ekki skilja hvaða rök liggi að baki breytingunni.
Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag breytingar á sóttvarnareglum sem taka gildi þann 13. janúar með fyrirvara um að faraldurinn haldist í lágmarki. Með þeim verður tuttugu manns leyft að koma saman í stað tíu, líkamsræktarstöðvum leyft að bjóða upp á hópatíma og íþróttaiðkun heimiluð á ný.
Á hið síðastnefnda bæði við um tómstundaiðkun og keppnisiðkun með engum áhorfendum. Nýju reglurnar munu gilda til 17. febrúar.
Fréttin hefur verið uppfærð.