Enski boltinn

Solskjær reiknar með þríeykinu gegn Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Ole Gunnar Solskjær vonast til að Manchester United komist í efsta sæti úrvalsdeildarinnar á morgun.
Ole Gunnar Solskjær vonast til að Manchester United komist í efsta sæti úrvalsdeildarinnar á morgun. Getty/Matthew Peters

Þríeykið sem missti af 1-0 bikarsigri Manchester United á Watford um helgina vegna meiðsla gæti snúið aftur gegn Burnley á morgun eða í það minnsta í toppslagnum gegn Liverpool á sunnudag.

Paul Pogba, Victor Lindelöf og Luke Shaw misstu allir af leiknum gegn Watford en Scott McTominay, sem bar fyrirliðabandið, skoraði þar sigurmarkið. Solskjær var spurður út í fjarveru þeirra þriggja eftir leik og hvort þeir yrðu með í deildarleikjunum við Burnley og Liverpool:

„Ég vonast til að þeir geti spilað gegn Liverpool, svo sannarlega. En ég er ekki viss varðandi leikinn við Burnley. Þær æfa létt [á sunnudag] og svo sjáum við til á mánudag [í dag],“ sagði Solskjær.

United hefur ekki verið svo nálægt toppnum í janúarmánuði frá því að Sir Alex Ferguson hætti vorið 2013. United dugar að fá stig gegn Burnley, í leik sem liðið á til góða, til að komast í efsta sætið í ensku úrvalsdeildinni fyrir stórleikinn við Liverpool. Liðin eru í dag jöfn að stigum en Liverpool er með betri markatölu.

Enginn á eftir að muna hvernig staðan var tólfta janúar

Solskjær vildi ekki gera of mikið úr því að komandi leikir væru mikið próf fyrir andlegan styrk sinna manna:

„Við erum ekki einu sinni hálfnaðir með tímabilið og það eru allir leikir í ensku úrvalsdeildinni prófraunir. Allir leikir reyna á. Leikurinn við Watford var prófraun, leikurinn við Burnley verður það og að sama skapi leikurinn við Liverpool. Síðan er það Fulham sem er enn önnur prófraunin. Það á enginn eftir að muna hvernig staðan var í deildinni 12. janúar 2021,“ sagði Solskjær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×