Skoðun

Þögn um lögbrot vekur spurningar

Björgólfur Jóhannsson skrifar

Skrif skólasystur minnar á þessum vettvangi undir fyrirsögninni „að mjólka læk og að móttaka læk” vöktu talsverða athygli. Þar var hún að vísa til þess að það hefði dregið dilk á eftir sér að gamall skólabróðir okkar, sem nú gegnir embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði lýst velþóknun á færslu sem hún skrifaði á Facebook þar sem fjallað var um vinnubrögð Ríkisútvarpsins í umfjöllun um mál tengd Samherja.

Fjölmiðlar hafa varið miklu púðri í umfjöllun um að ráðherrann hafi lýst velþóknun sinni á færslunni. Þannig fann einn prentmiðill sig knúinn til að fjalla um gömul tengsl ráðherrans við Samherja á tveimur opnum, fjórum heilsíðum, í kjölfarið.

Meira fjallað um „læk“ en efni málsins

Fjölmiðlar hafa fjallað miklu meira um afstöðu ráðherrans en efni málsins sem var tilefni skrifanna á Facebook. Tilefnið virðist vera áður óbirtir tölvupóstar, sem Samherji fékk aðgang að í desember sl., sem afhjúpa samráð Seðlabankans og Ríkisútvarpsins yfir fimm vikna tímabil í febrúar og mars 2012 rétt áður en Seðlabankinn lét framkvæma húsleit hjá Samherja hinn 27. mars 2012. Tölvupóstarnir sýna að yfirmaður hjá Seðlabankanum var í kumpánlegum samskiptum við fréttamann RÚV um rannsókn á Samherja, lak upplýsingum um rannsóknina í fréttamanninn og fékk frétt um húsleitina senda til yfirlestrar daginn áður en húsleitin fór fram.

Seðlabankinn hafnaði tilvist þessara tölvupóstsamskipta í átta ár. Þannig var því ítrekað neitað af stjórnendum Seðlabankans að stofnunin hefði verið í samskiptum við Ríkisútvarpið í aðdraganda húsleitarinnar. Seðlabankinn gekk meira að segja svo langt að segja ósatt um þessi samskipti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á árinu 2015. Þá fullyrti bankinn að einu samskiptin við fjölmiðla vegna húsleitarinnar hefðu verið í formi tveggja fréttatilkynninga. Það er líklega án fordæma hér á landi að ríkisstofnun segi vísvitandi ósatt fyrir dómi og handhöfum dómsvalds hlýtur að vera brugðið við þessi tíðindi. Kröfu Samherja, sem laut að afhendingu gagna, var hafnað í umræddu máli enda njóta ríkisstofnanir trausts og almennt er gengið út frá því að fulltrúar þeirra segi satt og rétt frá fyrir dómi.

Sú staðreynd að Seðlabanki Íslands faldi þessi tölvupóstssamskipti við Ríkisútvarpið í átta ár og sagði ósatt um þau fyrir dómi virðist ekki vera frétt í hugum íslenskra fjölmiðlamanna. Hvers vegna er það lögbrot sem Seðlabanki Íslands framdi gagnvart íslenskum borgurum ekki fréttaefni? Eigum við að gefa okkur að fréttamenn hafi ekki áttað sig á alvarleika málsins? Eða er ástæðan sú að ekki sé áhugi fyrir því að fjalla um málið því það sverti mögulega starfsheiður ákveðins fréttamanns?

Dagskrárvaldið er vandmeðfarið

Mikilvægi öflugra fjölmiðla í lýðræðisríkjum verður seint ofmetið. Þannig þjónar það hagsmunum samfélagsins alls að þar þrífist kröftugir og frjálsir fjölmiðlar sem fjalla með gagnrýnum hætti um mál og veiti stofnunum og fyrirtækjum aðhald. Fjölmiðlar eru hins vegar ekki hafnir yfir gagnrýni og dagskrárvaldið er vandmeðfarið. Það er full ástæða til að vekja athygli á því þegar fjölmiðlar víkja frá almennt viðurkenndum meginreglum sínum þegar umfjöllun um erfið og viðkvæm mál, sem snerta þá sjálfa, eru annars vegar. Hér er á ferðinni eldfimt mál fyrir einn fjölmiðil, Ríkisútvarpið. Og í viðleitni til að slá skjaldborg um kollega sína á ríkisfjölmiðlinum þegja aðrir fjölmiðlar.

Það er hins vegar dapurlegast af öllu að Ríkisútvarpið sannaði það í þessu máli að stofnuninni virðist ómögulegt að fjalla á hlutlægan og heiðarlegan hátt um eigin málefni. Það var Ríkisútvarpið sem fjallaði mest um rannsóknina á Samherja í svokölluðu Seðlabankamáli og var í reynd gerandi í þeirri atburðarás sem leiddi til rannsóknar á fyrirtækinu. Þannig hefur sú fréttastofa, sem fjallaði mest um húsleit og rannsókn á hendur Samherja, engan áhuga á því að fjalla um nýjar upplýsingar í málinu sem sýna svart á hvítu einbeittan vilja til að koma höggi á íslenskan lögaðila og borgara þessa lands.

Höfundur er annar forstjóri Samherja hf.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×