Aptos sinni nú yfir þúsund viðskiptavinum sem reka yfir 135 þúsund verslanir í yfir 65 löndum. Fyrirhuguð kaup Aptos fylgja í kjölfar kaupa Goldman Sachs Merchant Banking Division á Aptos á síðasta ári.
„Sameiginlega munu Aptos og LS Retail verða enn betur í stakk búin til að veita heildstæðar lausnir og þjónustu fyrir breiðari hóp verslana og þjónustufyrirtækja um allan heim.“
Starfsmenn Aptos eru um 1.250 talsins. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Atlanta í Bandaríkjunum, en auk þess er fyrirtækið með skrifstofur í Evrópu og Asíu. LS Retail er með höfuðstöðvar á Íslandi og skrifstofur í Asíu, Evrópu, Mið-Austurlöndum og Norður-Ameríku. Hjá félaginu starfa um 250 manns.
Hugbúnaður LS Retail í yfir 80 þúsund verslunum og veitingastöðum
Lausnir LS Retail eru nú seldar og afhentar af samstarfsaðilum LS Retail til yfir 80.000 verslana og veitingastaða í meira en 140 löndum, segir í tilkynningu. Viðskiptavinahópur LS Retail nær meðal annars til tískuverslanakeðja, raftækjaverslana, húsgagnaverslana, veitingastaða, hótela, kaffihúsa, apóteka og bensínstöðva.
„Samsettur viðskiptavinahópur fyrirtækjanna tveggja á sér vart hliðstæðu í þessum geira sé litið til markaðshlutdeildar og reynslu þeirra í að sinna verslun og þjónustu.“
Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail, segir að heimsfaraldurinn hafi hraðað breytingum í viðskiptaumhverfinu.
„Fyrirtæki þurfa lausnir sem veita þeim þekkingu, innsýn og vissu. Stafvæðing (e. digitalization) er orðin enn brýnni en áður og þörfin fyrir heildstæðar viðskiptalausnir er meira knýjandi en nokkru sinni fyrr. Þarna eru LS Retail og Aptos í fremstu röð, og þessi þróun er tækifæri til að auka markaðshlutdeild fyrirtækjanna og hjálpa fleiri viðskiptavinum um allan heim,“ er haft eftir honum í tilkynningu.
Hlakka til að hraða vexti fyrirtækisins
„Það fyllir okkur bjartsýni að Aptos, með sína miklu reynslu hvað varðar umbreytingu í skýjalausnir og samþætta netverslun, hafi valið að fara í samstarf við okkur til að ýta frekar undir vöxt okkar á alþjóðamarkaði,“ segir Magnús.
Pete Sinisgalli, forstjóri Aptos, segist hlakka til að vinna með stjórnendum LS Retail að því að hraða frekari vexti fyrirtækisins.
„Að fá LS Retail inn í Aptos fjölskylduna gerir okkur betur kleift að skila áþreifanlegum ávinningi til viðskiptavina okkar, þar sem það bætir við okkar þekkingu og auðlindir, fjölgar þeim geirum sem við náum til og víkkar út okkar markaðssvæði.“
Fréttin hefur verið uppfærð.