Enski boltinn

Rashford segir Mourinho hafa kennt sér að fá víti

Sindri Sverrisson skrifar
Marcus Rashford fellur við í teignum en í þetta sinn fékk hann þó ekki víti.
Marcus Rashford fellur við í teignum en í þetta sinn fékk hann þó ekki víti. Getty/Phil Noble

Umræða um vítaspyrnur er óhjákvæmileg í aðdraganda stórleiks Liverpool og Manchester United á sunnudaginn – liðanna sem nú eru efst í ensku úrvalsdeildinni. Marcus Rashford segir Jose Mourinho hafa hjálpað sér að fá oftar víti.

Rashford, sem er 23 ára, lék undir stjórn Mourinho á árunum 2016-2018 og segir Portúgalann hafa kennt sér að vera „klókari“ í vítateig andstæðinganna:

„Jose sagði: „Ef þú ert ekki klókur í því sem þú gerir, þá færðu ekki víti.““

Ole Gunnar Solskjær tók við af Mourinho sem stjóri United í desember 2018 og síðan þá hefur United fengið 27 víti í ensku úrvalsdeildinni, fleiri en nokkurt annað lið. United setti met með því að fá 14 víti á einni leiktíð í deildinni, á síðustu leiktíð, og hefur fengið 11 víti ef talið er í öllum keppnum á þessari leiktíð.

„Þegar maður er að stinga sér inn fyrir vörnina eða að rekja boltann og sér tæklingu koma, þá vill maður ekki lenda í henni því maður er að reyna að finna tækifæri til að skora. En stundum hefðum við átt að fá fleiri víti. Þegar Jose var stjóri þá man ég eftir 5-6 skiptum þar sem ég hefði átt að fá víti,“ sagði Rashford. Ráðið sem Mourinho hefði gefið honum hefði verið nauðsynlegur lærdómur.

Marcus Rashford á vítapunktinum.Getty/Michael Regan

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kvartaði undan því eftir tap gegn Southampton fyrir skömmu að United fengi fleiri vítaspyrnur en Liverpool. „Ég heyri núna að Manchester United hafi fengið fleiri víti á tveimur árum en ég á fimm og hálfu ári. Ég veit ekki hvort þetta er mér að kenna eða hvernig þetta getur gerst,“ sagði Klopp argur.

Solskjær sagðist ekki eyða tíma sínum í að telja vítaspyrnur en sagði það eflaust rétt að lið sitt hefði fengið fleiri en Liverpool. „Er þetta staðreynd? Sennilega,“ sagði Solskjær, og vísaði um leið í fræg ummæli Rafa Benítez, fyrrverandi stjóra Liverpool.


Tengdar fréttir

Sakar Jürgen Klopp um hræsni

Gamli dómarinn Mark Clattenburg var ekki hrifinn af orðum knattspyrnustjóra Liverpool á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×