Handbolti

„Kristín drottning tekur þetta að sér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Guðmunsdóttir í leik með HK-liðinu.
Kristín Guðmunsdóttir í leik með HK-liðinu. Vísir/Bára

HK þarf væntanlega að treysta á aldursforseta deildarinnar eftir að lykilmaður Kópavogsliðsins datt út á dögunum.

Svava Kristín Grétarsdóttir og sérfræðingar hennar í Seinni bylgjunni fóru yfir breytingarnar á Olís deild kvenna í handbolta síðan að síðast var spilað í deildinni fyrir meira en hundrað dögum síðan.

Svava Kristín var með sérfræðingana Sunnevu Einarsdóttur og Þorgerði Önnu Atladóttur með sér í þættinum og þær tóku meðal annars fyrir lið HK sem mætir með breytt lið.

Kvennalið HK varð nefnilega fyrir mikilli blóðtöku á meðan ekkert var spilað í þrjá mánuði í Olís deild kvenna í handbolta.

„Það eru talsverðar breytingar á liði HK. Þar er ansi stór leikmaður sem er dottin út því Vala Þorsteins er ólétt og hún verður ekki meira með,“ sagði Svava Kristín Grétarsdóttir. Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir skoraði fjórtán mörk í fyrstu þremur leikjum HK á leiktíðinni.

„Þetta er stór biti og það er enginn að fara fylla upp í hennar skarð,“ sagði Sunneva Einarsdóttir en Þorgerður Anna Atladóttir var þá fljót að minna hana á eitt.

„Kristín drottning stígur fram og tekur þetta að sér,“ sagði Þorgerður Anna og Sunneva tók undir það. Þar erum við að tala um reynsluboltann Kristínu Guðmundsdóttir sem verður 43 ára gömul í sumar.

Klippa: Seinni bylgjan: Breytingar hjá kvennaliði HK

„Hún tekur þetta að sér og gerir það vel. Hún mun stjórna þessu,“ sagði Sunneva.

„Eins og við vorum búnar að tala um þá var Vala lykilleikmaður í þessu liði og hún stjórnaði sóknarleiknum og sá um þetta,“ sagði Þorgerður Anna.

„Stjórnaði hljómsveit og kór,“ skaut Sunneva inn í.

„Hvað munar tuttugu árum á Völu og Kristínu,“ spurði þá Svava Kristín og bætti við.

„Við vitum öll hvernig Kristín er. Hún er geggjuð og rífur alla áfram. Það er fáránlegt hvað hún er ennþá góð en hún er samt orðin þetta gömul. Hún er á fimmtugsaldri,“ sagði Svava Kristín.

„Hún er komin á þennan aldur og hefur aðeins dregið sig í hlé síðustu tvö tímabil. Hún hefur verið meira í vörninni. Svo á hún aftur að koma inn núna og á þá að setja allt á herðarnar á henni? Ég er ekki viss um að það myndi gangi eitthvað svakalega vel,“ sagði Þorgerður Anna.

Það má sjá umfjöllun þeirra um missi HK hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×