Umfjöllun: Alsír - Ísland 24-39 | Fimmtán marka stórsigur á Alsíringum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 16. janúar 2021 21:55 Bjarki Már Elísson var markahæstur á vellinum með tólf mörk. epa/Khaled Elfiqi Ísland vann stórsigur á Alsír, 24-39, í F-riðli heimsmeistaramótsins í Egyptalandi í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Íslands á HM og kærkominn eftir tapið fyrir Portúgal, 25-23, á fimmtudaginn. Bjarki Már Elísson fór hamförum í fyrri hálfleik og skoraði þá níu mörk. Hann bætti þremur mörkum við í seinni hálfleik og endaði með tólf mörk. Ólafur Guðmundsson var næstmarkahæstur með sex mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson stjórnaði sóknarleiknum frábærlega og skoraði auk þess þrjú mörk. Síðast þegar Ísland mætti Alsír á HM, 2015, voru Íslendingar lengi í gang og lentu 6-0 undir. Það sama var ekki uppi á teningnum að þessu sinni. Björninn unninn í hálfleik Í stöðunni 3-3 skildu leiðir, Ísland skoraði þrjú mörk í röð og náði heljartaki á leiknum og lét það ekki af hendi. Um miðjan fyrri hálfleik var munurinn sex mörk, 5-11, og bilið breikkaði bara eftir það. Ísland skoraði þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddi með tólf mörkum að honum loknum, 10-22. Þrátt fyrir að úrslitin hafi fyrir löngu verið ráðin sló íslenska liðið ekkert af í seinni hálfleik og jók forskotið. Einbeitingin og krafturinn hjá íslenska liðinu var til fyrirmyndar, það hélt áfram allt til loka og náði mest sextán marka forskoti. Þegar uppi var staðið munaði fimmtán mörkum á liðunum, 24-39. Öruggur sigur og mjög jákvæð frammistaða hjá íslenska liðið þótt andstæðingurinn hafi vissulega ekki verið sterkur. Alls komust ellefu leikmenn Íslands á blað í leiknum í kvöld. Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í markinu og varði sextán skot (41 prósent) og skoraði auk þess eitt mark. Næsti leikur Íslands er gegn Marokkó í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudagskvöldið klukkan 19:30. Vel heppnaðar breytingar Guðmundur Guðmundsson gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Portúgal á fimmtudaginn. Björgvin Páll kom inn í hópinn og byrjaði í markinu, Gísli Þorgeir lék á miðjunni í stað Janusar Daða Smárasonar sem var utan hóps vegna meiðsla og Viggó Kristjánsson lék fyrri hálfleikinn í stöðu hægri skyttu. Ólafur Guðmundsson kom svo snemma inn á fyrir Elvar Örn Jónsson eftir að hann fékk tveggja mínútna brottvísun og lék skínandi vel og sennilega sinn besta landsleik síðan gegn Svíum á EM 2018. Ólafur var ógnandi, skoraði sex mörk, gaf fimm stoðsendingar og fiskaði tvö víti. Hafnfirðingurinn greip tækifærið með báðum höndum og heldur vonandi áfram á þessari braut út mótið. Svissneski vasahnífurinn Gísli Þorgeir var frábær í leiknum og tætti alsírsku vörnina í sig, sama hvað hún hét. Hann átti svör við öllu og var eins og svissneskur vasahnífur í leiknum; leysti inn á línu þegar þess þurfti, allar klippingar voru rétt tímasettar og þá réðu alsírsku varnarmennirnir ekkert við hann maður gegn manni. Viggó, sem fann sig ekki gegn Portúgal, var svo virkilega góður í fyrri hálfleik og skoraði þá þrjú mörk. Björgvin Páll lék vel í markinu, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann varði tíu af sextán skotum sínum. Sóknarveisla Sóknarleikurinn í fyrri hálfleik var nánast fullkominn. Ísland skoraði 22 mörk úr 23 skotum sem gerði skotnýtingu upp á 96 prósent. Þá tapaði íslenska liðið boltanum aðeins einu sinni í fyrri hálfleik. Heilt yfir var skotnýting íslenska liðsins 85 prósent og töpuðu boltarnir aðeins þrír sem mikil framför frá síðasta leik þar sem liðið var með fimmtán tapaða bolta. Öflug vörn Íslenska vörnin var sömuleiðis öflug og liðið hefur aðeins fengið á sig 49 mörk í fyrstu tveimur leikjunum á HM sem telst harla gott. Ýmir Örn Gíslason og Arnar Freyr Arnarsson ná alltaf betur og betur saman í miðju varnarinnar og að venju skiluðu bakverðirnir, Alexander Petersson, Ólafur og Elvar, sínu. Engin vandræði Varla veikan blett var að finna á íslenska liðinu í dag þótt Alsíringar hafi ekki verið merkilegir. Það sem af er móti hafa ýmis lið lent í vandræðum með lægra skrifaða andstæðinga og Portúgalir voru til að mynda lengi vel í basli með Marokkómenn í fyrri leik dagsins í F-riðli. Því var ekki að skipta hjá íslenska liðinu í kvöld. Það bar virðingu fyrir andstæðingnum og leiknum, lék af miklum krafti allt til loka og uppskar stórsigur. HM 2021 í handbolta
Ísland vann stórsigur á Alsír, 24-39, í F-riðli heimsmeistaramótsins í Egyptalandi í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Íslands á HM og kærkominn eftir tapið fyrir Portúgal, 25-23, á fimmtudaginn. Bjarki Már Elísson fór hamförum í fyrri hálfleik og skoraði þá níu mörk. Hann bætti þremur mörkum við í seinni hálfleik og endaði með tólf mörk. Ólafur Guðmundsson var næstmarkahæstur með sex mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson stjórnaði sóknarleiknum frábærlega og skoraði auk þess þrjú mörk. Síðast þegar Ísland mætti Alsír á HM, 2015, voru Íslendingar lengi í gang og lentu 6-0 undir. Það sama var ekki uppi á teningnum að þessu sinni. Björninn unninn í hálfleik Í stöðunni 3-3 skildu leiðir, Ísland skoraði þrjú mörk í röð og náði heljartaki á leiknum og lét það ekki af hendi. Um miðjan fyrri hálfleik var munurinn sex mörk, 5-11, og bilið breikkaði bara eftir það. Ísland skoraði þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddi með tólf mörkum að honum loknum, 10-22. Þrátt fyrir að úrslitin hafi fyrir löngu verið ráðin sló íslenska liðið ekkert af í seinni hálfleik og jók forskotið. Einbeitingin og krafturinn hjá íslenska liðinu var til fyrirmyndar, það hélt áfram allt til loka og náði mest sextán marka forskoti. Þegar uppi var staðið munaði fimmtán mörkum á liðunum, 24-39. Öruggur sigur og mjög jákvæð frammistaða hjá íslenska liðið þótt andstæðingurinn hafi vissulega ekki verið sterkur. Alls komust ellefu leikmenn Íslands á blað í leiknum í kvöld. Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í markinu og varði sextán skot (41 prósent) og skoraði auk þess eitt mark. Næsti leikur Íslands er gegn Marokkó í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudagskvöldið klukkan 19:30. Vel heppnaðar breytingar Guðmundur Guðmundsson gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Portúgal á fimmtudaginn. Björgvin Páll kom inn í hópinn og byrjaði í markinu, Gísli Þorgeir lék á miðjunni í stað Janusar Daða Smárasonar sem var utan hóps vegna meiðsla og Viggó Kristjánsson lék fyrri hálfleikinn í stöðu hægri skyttu. Ólafur Guðmundsson kom svo snemma inn á fyrir Elvar Örn Jónsson eftir að hann fékk tveggja mínútna brottvísun og lék skínandi vel og sennilega sinn besta landsleik síðan gegn Svíum á EM 2018. Ólafur var ógnandi, skoraði sex mörk, gaf fimm stoðsendingar og fiskaði tvö víti. Hafnfirðingurinn greip tækifærið með báðum höndum og heldur vonandi áfram á þessari braut út mótið. Svissneski vasahnífurinn Gísli Þorgeir var frábær í leiknum og tætti alsírsku vörnina í sig, sama hvað hún hét. Hann átti svör við öllu og var eins og svissneskur vasahnífur í leiknum; leysti inn á línu þegar þess þurfti, allar klippingar voru rétt tímasettar og þá réðu alsírsku varnarmennirnir ekkert við hann maður gegn manni. Viggó, sem fann sig ekki gegn Portúgal, var svo virkilega góður í fyrri hálfleik og skoraði þá þrjú mörk. Björgvin Páll lék vel í markinu, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann varði tíu af sextán skotum sínum. Sóknarveisla Sóknarleikurinn í fyrri hálfleik var nánast fullkominn. Ísland skoraði 22 mörk úr 23 skotum sem gerði skotnýtingu upp á 96 prósent. Þá tapaði íslenska liðið boltanum aðeins einu sinni í fyrri hálfleik. Heilt yfir var skotnýting íslenska liðsins 85 prósent og töpuðu boltarnir aðeins þrír sem mikil framför frá síðasta leik þar sem liðið var með fimmtán tapaða bolta. Öflug vörn Íslenska vörnin var sömuleiðis öflug og liðið hefur aðeins fengið á sig 49 mörk í fyrstu tveimur leikjunum á HM sem telst harla gott. Ýmir Örn Gíslason og Arnar Freyr Arnarsson ná alltaf betur og betur saman í miðju varnarinnar og að venju skiluðu bakverðirnir, Alexander Petersson, Ólafur og Elvar, sínu. Engin vandræði Varla veikan blett var að finna á íslenska liðinu í dag þótt Alsíringar hafi ekki verið merkilegir. Það sem af er móti hafa ýmis lið lent í vandræðum með lægra skrifaða andstæðinga og Portúgalir voru til að mynda lengi vel í basli með Marokkómenn í fyrri leik dagsins í F-riðli. Því var ekki að skipta hjá íslenska liðinu í kvöld. Það bar virðingu fyrir andstæðingnum og leiknum, lék af miklum krafti allt til loka og uppskar stórsigur.
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti