Innlent

Svavar fór með á­horf­endur á æsku­slóðir sínar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Svavar Gestsson lýsti hugmyndum sínum um Gullna söguhringinn í þættinum Um land allt á Stöð 2 árið 2017. Svavar fór þar með Kristjáni Má Unnarssyni um helstu söguslóðir Dalasýslu og rakti hvernig hann sá fyrir sér að treysta mætti byggðina með menningartengdri starfsemi, byggða á Íslendingasögunum.

Svavar, fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, formaður Alþýðubandalagsins, þingmaður, ráðherra og sendiherra, lést á gjörgæsludeild Landspítalans aðfararnótt 18. janúar.

Í þættinum var farið á æskuslóðir Svavars á Fellsströnd í Dalasýslu, í Galtardal, þar sem hann lifði sína barnæsku en þar reistu foreldrar hans nýbýlið Grund. Þar rakti Svavar hvernig á því stóð að upp úr þessu umhverfi sjálfstæðis- og framsóknarmanna spratt einn helsti leiðtogi íslenskra sósíalista.

Svavar og eiginkona hans, Guðrún Ágústsdóttir, voru heimsótt í sumarbústað þeirra hjóna við Króksfjörð í Reykhólasveit. Þar höfðu þau skapað sér sælureit og nutu tilverunnar að loknum viðburðaríkum stjórnmála- og embættisferli, en sumarbústaðinn byggðu þau þegar tíu ára sendiherrastörfum Svavars lauk. Þar sinnti Svavar jafnframt hestamennsku, helsta áhugamáli sínu utan stjórnmálanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×