Í frumvarpinu er lagt til að nýrri grein verði bætt við almenn hegningarlög. Hún hljóðar svo: „Hver sá sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Í greinargerð frumvarpsins er vísað til þess að tjáningarfelsinu megi setja skorður með lögum að uppfylltum nokkrum skilyrðum og er ákvæðið talið rúmast innan þess. Hér sé lagt til að tiltekin hatursorðræða verði bönnuð og þannig komið í veg fyrir að brotið verði gegn æru og mannorði fólks.
„Takmörkunin felur í sér bann við því að afneita opinberlega einna verstu glæpum sem framdir hafa verið gegn mannkyni. Glæpir sem bæði í sögulegu samhengi sem og landfræðilegu standa nærri Íslandi. Nauðsynlegt er að standa vörð um sögu þessara hörmunga sem áttu sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og koma í veg fyrir að unnt verði að grafa undan henni, gera lítið úr, rangfæra eða falsa svo að slíkir atburðir endurtaki sig aldrei,“ segir í greingargerð frumvarpsins.