Helena eignast dóttur í byrjun desember en var komin af stað á ný þegar keppni hófst á ný eftir kórónuveiruhlé í síðustu viku. Helena hefur nú spilað þrjá leiki á einni viku og hækkað framlag sitt í hverjum leik.
Helena náði því síðan í gær að vera með 30 framlagsstig í leik aðeins tæpum sjö vikum eftir að hún eignaðist barn.
Helena var með 17 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar í 80-68 sigri á Snæfelli. Valsliðið þurfti líka á framlagi hennar að halda þar sem hin bandaríska Kiana Johnson gat ekki spilað leikinn vegna meiðsla.
Helena var með 17 framlagsstig í fyrsta leiknum, 24 framlagsstig í öðrum leiknum og svo 30 framlagsstig í gærkvöldi. Þessir þrír leikir fóru fram frá 13. til 20. janúar og Helena var því alls með 71 framlagsstig á einni viku aðeins rúmum mánuði eftir að hún eignaðist barn.