Íbúar Reykhólahrepps hafa frá því í byrjun október í haust þurft að aka í hátt í klukkustund, annaðhvort til Hólmavíkur eða í Búðardal, til að kaupa nauðsynjavörur, eftir að rekstri Hólabúðar var hætt. Í frétt á heimasíðu Reykhólahrepps kemur fram að ákveðið hafi verið að ganga til samninga við þau Helgu Guðmundsdóttur og Arnþór Sigurðsson, sem voru þau einu sem sóttu um þegar verslunarhúsnæðið var auglýst til leigu.

„Þau stefna að formlegri opnun 1. apríl, en jafnvel fyrr ef vel gengur að koma hlutunum af stað,“ segir á Reykhólavefnum.
„Eitt mál er þó óleyst, en það er íbúðarhúsnæði fyrir þau sjálf. Þau eru að leita að leiguhúsnæði á Reykhólum eða næsta nágrenni.“
Byggðastofnun tilkynnti í vikunni að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefði staðfest tillögur nefndar um úthlutun samtals 12 milljóna króna til verslunar í strjálbýli fyrir árið 2021. Auk verslunar á Reykhólum hlaut Kauptún á Vopnafirði 5,2 milljóna króna styrk og Hríseyjarbúðin einnar milljóna króna styrk.
„Markmið með framlögunum er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar,“ segir í frétt Byggðastofnunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá því í nóvember um Reykhólabúðina: