Umrætt svæði var rýmt í öryggisskyni á miðvikudaginn vegna snjóflóðahættu en nú hefur dregið úr veðri frá í gær og á föstudag og hefur minni úrkoma mælst á sjálfvirkum úrkomumælum. Þá hefur vindur fyrir norðan snúist meira til austurs og er það talið draga úr hættunni á snjóflóði úr Hafnarfjalli að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Áfram er hætta af völdum snjóflóða þar sem snjóalög kunna enn að vera óstöðug, m.a. sunnan við leiðigarðinn Stóra-Bola, þó rýmingu húsa neðan garðsins hafi verið aflétt. Þar þarf að sýna sérstaka aðgæslu. Þó er fólk beðið um að vera ekki á ferli ofan við varnargarða,“ segir í tilkynningunni.
Þá er áréttað að óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi er enn í gildi. Stór snjóflóð afi fallið undanfarna daga á Tröllaskaga, meðal annars við Smiðsgerði í austanverðum Skagafirði, á Öxnadalsheiði og á Ólafsfjarðarvegi. Síðast í morgun féll snjóflóð yfir veginn um Öxnadalsheiði.
Því þurfi vegfarendur enn að hafa varann á þegar þeir eru á ferð um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. „Búist er við NA-strekkings vindi og éljum í dag og á morgun og verður áfram fylgst með aðstæðum. Óvissa er um hversu mikil ofankoma verður í éljaganginum næstu tvo sólarhringa en það ræður miklu um hversu mikil snjóflóðahættan skapast á hverjum stað,“ segir í tilkynningunni. Þá er fólk hvatt til að fylgjast vel með nýjustu upplýsingum af veðri, færð og aðstæðum á vef Vegagerðarinnar og hjá Veðurstofu Íslands.