Enski boltinn

Liver­pool að­eins einu sinni komist í 16-liða úr­slit FA-bikarsins síðan Klopp tók við

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp að reikna út hvenær Liverpool kemst lengra en aðeins í 16-liða úrslit FA-bikarsins.
Klopp að reikna út hvenær Liverpool kemst lengra en aðeins í 16-liða úrslit FA-bikarsins. Michael Regan/ Images

Englandsmeistarar Liverpool töpuðu 3-2 gegn Manchester United í fjórðu umferð FA-bikarsins [32-liða úrslitum] í dag. Það þýðir að Liverpool hefur aðeins einu sinni komist í 16-liða úrslit keppninnar á þeim sex árum sem Jürgen Klopp hefur stýrt liðinu.

Tapið í dag var í fjórða sinn sem lærisveinar Klopp detta út úr fjórða umferð FA-bikarsins frá árinu 2016. Í fyrra komst liðið í fimmtu umferð [16-liða úrslit] í fyrsta sinn undir stjórn Klopp en náðu ekki að endurtaka leikinn í ár.

Árið 2016 gerði liðið markalaust jafntefli við West Ham United í 4. umferð FA-bikarsins og því þurftu þau að mætast aftur. Er liðin mættust aftur var staðan jöfn 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Þar skoraði West Ham í uppbótartíma og leiknum lauk með 2-1 sigri West Ham.

Ári síðar tapaði Liverpool 1-2 á heimavelli gegn Wolves í 4. umferð. Árið 2018 tapaði liðið 2-3 á heimavelli gegn West Bromwich Albion, enn og aftur í 4. umferð. Árið 2019 datt liðið í fyrsta skipti út í 3. umferð, aftur eftir 2-1 tap gegn Wolves, að þessu sinni á Molineux-vellinum.

Í fyrra komst liðið svo alla leið í 16-liða úrslit keppninnar en þurfti að lúta í gras gegn Chelsea, lokatölur 2-0 á Brúnni. Chelsea fór svo alla leið í úrslit þar sem liðið tapaði gegn Arsenal.

Í ár var Liverpool svo slegið út af Manchester United. Klopp þarf því að bíða enn lengur eftir því að leika til verðlauna á Wembley-leikvanginn í Lundúnum.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×