Innlent

Malbika veginn að Urriðafossi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Urriðafoss er neðsti foss í Þjórsá. Hann er sex metra hár.
Urriðafoss er neðsti foss í Þjórsá. Hann er sex metra hár. Martin Zwick/Getty

Vegagerðin hefur boðið út endurbyggingu 1,2 kílómetra kafla Urriðafossvegar. Kaflinn nær frá gatnamótunum á hringveginum við Þjórsárbrú að bílaplani við Urriðafoss.

Samkvæmt teikningum og útboðslýsingu verður fylgt núverandi veglínu en vegurinn styrktur og lögð á hann tvöföld klæðning. Tilboðsfrestur er til 2. febrúar. Ljóst er að verktaki þarf að vinna rösklega því gert er ráð fyrir verklokum 15. júní 2021, fyrir mitt sumar.

Kaflinn milli Urriðafoss og hringvegarins er um 1,2 kílómetra langur. Bærinn Urriðafoss er norðan við fossinn.Vegagerðin

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, er bílaplanið sjálft ekki á vegum Vegagerðarinnar heldur borgar Flóahreppur fyrir það. Verður slitlag lagt ofan á það eins og það er núna og er sá hluti inni í útboðinu.

Urriðafoss er neðsti foss Þjórsár og stundum talinn vatnsmesti foss landsins. Þetta er þó skilgreiningaratriði. Sé Selfoss í Ölfusá, við samnefndan bæ, talinn vera foss er hann vatnsmeiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×