Samstarf

Bein útsending: VR fagnar 130 árum

VR
Þann 27. janúar árið 1891 var Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, VR, stofnað á fundi í veitingahúsinu Hermes við Lækjargötu.
Þann 27. janúar árið 1891 var Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, VR, stofnað á fundi í veitingahúsinu Hermes við Lækjargötu. VR

Fyrrum formenn VR segja frá stjórnartíð sinni við félagið í sérstakri hátíðardagskrá í kvöld. Bein útsending hefst hér á Vísi klukkan 19.30.

Hátíðardagskrá í tilefni 130 ára afmælis VR verður sýnd hér í beinni útsendingu á Vísi í kvöld klukkan 19.30. Sigmar Guðmundsson fær til sín fyrrum formenn VR í gamla Lækjargötuhúsið þar sem félagið var stofnað á sínum tíma, en húsið stendur nú á Árbæjarsafni. Þá flytja Vandræðaskáld lag sem þau sömdu um VR. 

Hægt verður að horfa á útsendinguna í spilaranum hér fyrir neðan.

Samtakamátturinn lykillinn að árangri

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR flytur ávarp í kvöld í tilefni tímamótanna. Hann segir mikið rót hafa einkennt síðustu misseri og enn séu krefjandi tímar framundan.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR Egill

„Ég mun fara yfir það helsta sem við höfum gert síðustu árin og áskoranirnar sem framundan eru. Þetta hafa verið ótrúlegir tímar þar sem hver krísan hefur rekið aðra og verkefnin mörg. Nú stöndum við frammi fyrir breytingum á vinnumarkaði, tæknibreytingum og sjálfvirknivæðingu. Síðast en ekki síst verðum við að sammælast um að skila betra samfélagi til komandi kynslóða en okkur var rétt,“ segir Ragnar.

„Hápunktur dagskrárinnar í kvöld eru þó viðtölin við fyrrum formenn félagsins. Allir hafa sínar áherslur og ólíka upplifun og það er gríðarlega áhugavert og gaman að heyra hvern segja frá sinni stjórnartíð. Stéttarbaráttan og lífsbaráttan fer fram á öllum sviðum samfélagsins, ekki bara gegnum launahækkanir. Samtakamáttur ólíkra stétta og ólíkra hópa á öllum tekjusviðum er lykillinn að því að árangur náist og við verðum öll að hjálpast að við þjóðþrifa mál þó þau snerti okkur ekki beint. Það má minnast þess að atvinnuleysistryggingar, sem nýtast öllum hópum og við teljum sjálfsagðar í dag, voru fengnar í gegn af fólki sem hafði varla til hnífs og skeiðar en fór í verkfall í margar vikur árið 1955 til að berjast fyrir þessum réttindum. Við eigum öll að standa saman í að bæta samfélagið,“ segir Ragnar.

Inni á vefsíðu VR verður einnig hægt að fylgjast með útsendingu hátíðardagskrárinnar í kvöld. Á síðunni er að finna skemmtilega samantekt á sögu VR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×