Innlent

Albertína á von á sínu fyrsta barni og hættir á þingi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Albertína hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna síðan 2017.
Albertína hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna síðan 2017. Vísir/vilhelm

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður Samfylkingarinnar hyggst ekki gefa kost á sér til að taka sæti ofarlega á lista flokksins fyrir næstu Alþingiskosningar. Hún hyggst einbeita sér að nýju verkefni; fyrsta barni hennar og eiginmannsins.

„Það hafa verið mikil forréttindi að sitja á þingi fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi þetta kjörtímabil sem nú er að renna sitt skeið. Síðustu vikur og mánuði hef ég verið að velta fyrir mér framhaldinu,“ skrifar Albertína í Facebook-færslu í kvöld.

„Ég hafði hug á að halda áfram en nú er ég í þeirri stöðu að líf mitt og okkar hjónanna mun breytast verulega í vor en við eigum von á okkar fyrsta barni.“

Albertína segir að sér hafi þótt ómetanlegt að vera fulltrúi norðausturkjördæmis á þingi. Raunveruleikinn sé samt sá að starfið krefjist mikils af fólki. Þá sé það ekki sérstaklega fjölskylduvænt, auk þess sem hún hafi saknað þess að geta ekki verið meira á Akureyri.

Kæru vinir, það hafa verið mikil forre ttindi að sitja a þingi fyrir Samfylkinguna i Norðausturkjo rdæmi þetta...

Posted by Albertína Friðbjörg Elíasdóttir on Fimmtudagur, 28. janúar 2021

Hún hafi því, eftir mikla umhugsun, ákveðið að gefa ekki kost á sér til að taka sæti ofarlega á lista Samfylkingarinnar fyrir næstu Alþingiskosningar sem eru nú í haust.

„Þetta er ekki auðveld ákvörðun en ég held hún sé sú eina rétta fyrir mig og fjölskylduna á þessum tíma. Ég óska auðvitað félögum mínum í Samfylkingunni alls hins besta og mun áfram leggja mitt að mörkum til að Samfylkingin nái góðum árangri í kosningunum í haust, enda trúi ég því að jafnaðarstefnan sé lykillinn að þeim samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag.“

Albertína er fædd árið 1980 og hefur verið þingmaður Samfylkingarinnar í norðausturkjördæmi síðan 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×