Enski boltinn

Lingard til West Ham á láni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lingard mun leika með West Ham út leiktíðina.
Lingard mun leika með West Ham út leiktíðina. Clive Brunskill/Getty Images

Jesse Lingard, leikmaður Manchester United, hefur skrifað undir lánssamning við West Ham United. Gildir samningurinn þangað til í sumar.

Lingard hefur lítið sem ekkert fengið að spreyta sig með liði Ole Gunnar Solskjær undanfarið og heldur nú til Lundúna í von um fleiri mínútur á vellinum. Hann hefur aðeins byrjað tvo leiki á þessari leiktíð, gegn Luton Town í deildarbikarnum og Watford í FA-bikarnum. 

Þá kom hann inn af varamannabekknum gegn Brighton & Hove Albion, einnig í deildarbikarnum. Lingard hefur ekki enn komið við sögu í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Talið er að bæði Newcastle United og West Bromwich Albion hafi sóst eftir kröftum hins 28 ára gamla Lingard sem valdi hins vegar á endanum West Ham.

Aðeins munar fimm stigum á Manchester United og West Ham United í töflunni. Það verður forvitnilegt að sjá hvort Lingard getur hjálpað lærisveinum David Moyes að ná í skottið á Man United þegar líður á síðari hluta ensku úrvalsdeildarinnar.

Alls hefur Lingard tekið þátt í 133 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hefur hann skorað 18 mörk í þeim leikjum og lagt upp önnur tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×