Enski boltinn

Rúnar Alex fyrsti ís­lenski mark­vörðurinn til að spila í ensku úr­vals­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Alex í leiknum í kvöld.
Rúnar Alex í leiknum í kvöld. Catherine Ivill/Getty Images

Rúnar Alex Rúnarsson skráði sig á spjöld knattspyrnusögunnar í kvöld er hann varð fyrsti íslenski markvörðurinn til að standa í marki liðs í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er Arsenal tapaði 2-1 gegn Wolves í kvöld.

Rúnar Alex hóf leik kvöldsins á varamannabekk Arsenal en hinn þýski Bernd Leno var að venju á milli stanganna. Segja má að Rúnar Alex hafi verið nokkuð óvænt á varamannabekk liðsins í kvöld en Mat Ryan – sem kom á láni frá Brighton & Hove Albion – er meiddur og var ekki með í kvöld.

Staðan var 2-1 Wolves í vil þegar Rúnar Alex kom inn í kvöld. Ástæðan var sú að Leno rak hendi í knöttinn fyrir utan vítateig á 72. mínútu og þar sem leikmaður Wolves var nálægt honum þá var Þjóðverjinn sendur í sturtu fyrir að ræna marktækifæri. 

Um var að ræða annað rauða spjald Arsenal í leiknum þar sem David Luiz fékk rautt spjald er fyrri hálfleikur var í þann mund að enda.

Rúnar Alex átti mjög fína innkomu og varði í tvígang vel er níu leikmenn Arsenal gerðu sitt besta til að jafna metin. Gestirnir fengu aukaspyrnu á vallarhelmingi Wolves er uppbótartíminn var við það að renna út og tók Rúnar spyrnuna. Heimamenn skölluðu frá og leiknum lauk því með 2-1 sigri Wolves.

Eins og áður kom fram varð Rúnar samt sem áður fyrsti íslenski markvörðurinn til að spila í ensku úrvalsdeildinni með innkomunni í kvöld. Þar sem áðurnefndur Mat Ryan er sem stendur á meiðslalista Arsenal gæti verið svo að Rúnar Alex verði fyrsti íslenski markvörðurinn til að byrja leik í ensku úrvalsdeildinni er Arsenal mætir Aston Villa þann 6. febrúar.

Nú er bara að bíða og sjá, og vona.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×