Enski boltinn

Hasenhüttl: Við eigum ekki fleiri leik­menn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ralph Hasenhüttl var alveg ráðalaus er hann horfði á lið sitt tapa í kvöld.
Ralph Hasenhüttl var alveg ráðalaus er hann horfði á lið sitt tapa í kvöld. Matt Watson/Getty Images

Ralph Hasenhüttl var eðlilega dapur er hann mætti í viðtal hjá BBC eftir 0-9 tap sinna manna í Southampton gegn Manchester United á Old Trafford í kvöld. 

Um er að ræða annað 9-0 tap Southampton undir stjórn Hasenhüttl, það fyrra kom gegn Leicester City 25. október 2019.

„Manni færri eftir þrjár mínútur gegn þessum andstæðingi, ég óska Manchester United til hamingju. Þeir létu okkur vinna og hættu ekki að skora. Síðara rauða spjaldið var mest svekkjandi, við eigum ekki fleiri leikmenn,“ sagði Hasenhüttl eftir leik. 

Þarna er Austurríkismaðurinn að vitna í þá Alexandre Jankewitz – sem var að spila sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni – og Jan Bednarek. Báðir fengu rauð spjöld í kvöld. Þá eru tíu leikmenn liðsins á meiðslalista sem stendur. 

„Bednarek virðist ekki drepa hann [Anthony Martial, framherja Man Utd] en ég vil ekki tala um dómara leiksins. Í síðustu viku var hann myndbandsdómarinn okkar og setti mark sitt á leikinn. Þetta var heimskulegt brot hjá unga stráknum – Jankewitz – og drap allt hjá okkur.“

„Við komum hingað með tvo markverði á bekknum. Ég vildi gefa nokkrum af ungu strákunum tækifæri til að sýna sig og sanna. Þegar ég sé hvað er að eiga sér stað er betra að kippa þeim af velli þar sem 0-9 eru ekki góð úrslit í fyrsta leik.“

„Við reyndum að halda markinu okkar hreinu í síðari hálfleik en með níu menn á vellinum var of auðvelt fyrir þá að skora. Hvað get ég sagt? Þetta var skelfilegt en við stóðum saman eftir að tapa 9-0 síðast og við getum gert það aftur. Ég sagði á þeim tíma að við mættum ekki gera þetta aftur en hér erum við og við verðum að taka því,“ sagði Hasenhüttl að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×