Enski boltinn

Segist vera í besta starfi í heimi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emma Hayes segist vera í besta starfi í heimi hjá kvennaliði Chelsea.
Emma Hayes segist vera í besta starfi í heimi hjá kvennaliði Chelsea. Catherine Ivill/Getty Images

Emma Hayes, þjálfari kvennaliðs Chelsea í knattspyrnu, segist vera í besta starfi í heimi og hafi því engan áhuga á að taka við Wimbledon sem leikur í ensku C-deildinni, karla megin.

Wimbledon er í basli og rak nýverið þjálfara sinn, Glyn Hodges. Er nöfnum var kastað fram kom í ljós að Emma Hayes var eitt þeirra. Hefði hún tekið starfinu þá hefði hún orðið fyrsti kvenmaðurinn til að þjálfa lið í karlaboltanum á Englandi.

„Ég vona innilega að Wimbledon finni rétta aðilann í starfið. Þetta með að félagið hafi ekki efni á mér hefur ekkert með ákvörðun mína að gera heldur einfaldlega þá staðreynd að ég er í besta starfi í heimi,“ sagði Hayes í gærkvöld eftir að Chelsea hafði unnið 6-0 sigur á Dagnýju Brynjarsdóttur og stöllum hennar í West Ham United í enska deildarbikarnum.

Vert er að taka fram að Dagný var ekki í leikmannahópi West Ham.

Hayes tók einnig fram að karlafótbolti endurspegli ekki þann fjölbreytta veruleika sem við búum við. Þá tók hún fram að hún hefði engan áhuga á starfinu hjá Wimbledon þar sem hún væri ánægð í eigin starfi og liti á það sem skref niður á við.

Undir það var tekið í grein The Athletic á dögunum þar sem farið var yfir magnaðan feril Hayes og að Chelsea-lið hennar væri enn án ósigurs eftir 12 umferðir í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að liðið ætti enn möguleika á að vinna fernuna. FA-bikarinn, deildarbikarinn og Meistaradeild Evrópu, sem og ensku úrvalsdeildina.

Þó hin 44 ára gamla Hayes hafi ekki viljað starfið þá vonast hún til þess að nöfn kvenkyns þjálfara verði oftar í umræðunni þegar kemur að störfum karla megin.

„Allir eiga sér stað í fótbolta, og ég segi það aftur: Ég er mjög ánægð hjá Chelsea.“

Hayes hefur starfað hjá Chelsea síðan 2012, undir hennar stjórn hefur liðið þrívegis unnið ensku úrvalsdeildina, tvisvar FA-bikarinn og einu sinni deildarbikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×