Enski boltinn

Ísak Berg­mann á­fram í Sví­þjóð þrátt fyrir tilboð Úlfanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Bergmann kann vel við sig í Svíþjóð.
Ísak Bergmann kann vel við sig í Svíþjóð. Norrköping

Hjörvar Hafliðason sagði í hlaðvarpi sínu Dr. Football í gær að enska úrvalsdeildarfélagið Wolves hefði boðið í ungstirnið Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmann Norrköping í Svíþjóð, á lokadegi félagaskiptagluggans.

Sænska félagið var tilbúið að samþykkja tilboðið en hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann hafði lítinn áhuga á að því að færa sig um set að svo stöddu. Þess í stað er hann að undirbúa sig undir næsta tímabil með Norrköping.

Í gær tilkynnti félagið svo að Ísak muni leika í treyju númer átta á komandi leiktíð en hann lék í treyju númer 27 á síðustu leiktíð.

„Það kom alvöru tilboð frá Úlfunum en ég fékk aldrei að heyra hversu hátt það var. Norrköping voru tilbúnir að selja hann fyrir þessa upphæð en 17 ára guttinn sagði bara nei,“ sagði Hjörvar í Dr. Football í gær.

Ísak Bergmann lék sinn fyrsta A-landsleik seint á síðasta ári þegar hann kom inn af varamannabekk Íslands í 4-0 tapinu gegn Englandi á Wembley í Þjóðadeildinni. Skagamaðurinn ungi er eftirsóttur af flestum stórliðum Evrópu en hefur ákveðið að halda sig við Norrköping um sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×