Enski boltinn

Moyes æfur í leikslok: VAR til skammar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Moyes vandaði Mike Dean ekki kveðjurnar í leikslok.
Moyes vandaði Mike Dean ekki kveðjurnar í leikslok. vísir/Getty

VAR myndbandadómgæslan var í sviðsljósinu í markalausu jafntefli Fulham og West Ham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Tékkinn snjalli, Tomas Soucek, fékk að líta rauða spjaldið í uppbótartíma venjulegs leiktíma fyrir vægast sagt litlar sakir þegar hann rak olnbogann í andlit Aleksandar Mitrovic á meðan þeir biðu þess að aukaspyrna yrði tekin á miðjum vellinum.

Mike Dean, dómari leiksins, fór sjálfur í skjáinn og skoðaði atvikið og komst að þeirri niðurstöðu að reka Soucek útaf.

Leikmenn West Ham voru æfir og David Moyes, stjóri liðsins, ar það einnig í leikslok.

„Allir þeir sem koma að VAR í þessum leik ættu að skammast sín. Það var augljóst fyrir öllum sem voru á vellinum að þetta var óviljaverk. Mér finnst vandræðalegt að þeir hafi valið að reka hann útaf,“ sagði Moyes

„Við viljum að þeir taki réttar ákvarðanir. Þarna tóku þeir vonda ákvörðun en það er lítið sem við getum gert.“

„Þetta er mjög ósanngjarnt fyrir strákinn (Soucek). Ég er viss um að dómarasamfélagið mun finna til afsakanir til að réttlæta þessa ákvörðun,“ sagði Moyes.


Tengdar fréttir

Markalaust í nágrannaslagnum

Ekkert mark var skorað þegar Lundúnarliðin West Ham United og Fulham áttust við í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×