Sport

Tom Brady fær ekki bara hring fyrir sigurinn í Super Bowl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady fagnar með Vince Lombardi bikarinn eftir sigur Tampa Bay Buccaneers í Super Bowl leiknum á sunnudagskvöldið.
Tom Brady fagnar með Vince Lombardi bikarinn eftir sigur Tampa Bay Buccaneers í Super Bowl leiknum á sunnudagskvöldið. AP/David J. Phillip

Tom Brady tryggði sér sinn sjöunda Super Bowl hring eftir sannfærandi sigur Tampa Bay Buccaneers á Kansas City Chiefs í Super Bowl á sunnudagskvöldið en það voru ekki einu verðlaun kappans.

Tom Brady skilaði Tampa Bay Buccaneers Super Bowl titli á sínu fyrsta tímabili. Þetta var fyrsti titill félagsins í átján ár en liðið hafði ekki komist í úrslitakeppnin síðan 2008 fyrir komu Brady.

Brady sýndi enn á ný hversu mikill sigurvegari hann er en enginn annar leikstjórnandi í sögunni hefur unnið fleiri en fjóra NFL-titla.

Hinn 43 ára gamli Tom Brady gerði tveggja ára samning við Tampa Bay Buccaneers í mars í fyrra og var öruggur með að fá fimmtíu milljónir dollara fyrir þessi tvö tímabil eða rúmlega 6,4 milljarða í íslenskum krónum.

Það voru líka bónusgreiðslur í þessum sögulega samningi fyrir mann sem er á 44. og 45. aldursári á meðan samningurinn er í gildi.

Auk þess að fá fimmtán milljónir dollara fyrir þetta tímabil og tíu milljónir dollara að auki fyrir að komast í liðið þá fær Brady 2,2 milljónir dollara fyrir að skila Tampa Bay Buccaneers Super Bowl titlinum.

Brady fékk 500 þúsund dollara fyrir að skila Buccaneers liðinu í úrslitakeppnina, 250 þúsund dollara fyrir hvern sigur í úrslitakeppninni, 500 þúsund dollara fyrir að komast í Super Bowl og loks 500 þúsund Bandaríkjadala fyrir sigurinn í Super Bowl.

Brady fær því ekki bara glæsilega hring fyrir sigurinn í Super Bowl heldur einnig 283 milljóna króna bónusgreiðslu. Ekki slæmt fyrir mann á fimmtugsaldri.


NFL er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NFL er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði. Beinar útsendingar frá öllum leikjum eru á NFL Game Pass sem hægt er að kaupa sem viðbót við Sportpakkann á 2.000 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×