Enski boltinn

Manchester-liðin hafa sæta­skipti eftir sigur City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester City fór upp fyrir nágranna sína í United með 3-0 sigri í kvöld.
Manchester City fór upp fyrir nágranna sína í United með 3-0 sigri í kvöld. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Manchester City tók á móti Manchester United í alvöru borgarslag í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á Englandi. Fór það svo að Man City vann öruggan 3-0 sigur eftir eitt mark í sitthvorum hálfleik í kvöld.

Búist var við hörkuleik í kvöld enda var Man City í þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn og Man Utd í öðru sæti. Það fór þó svo að heimastúlkur reyndust sterkari aðilinn þegar á völlinn var kominn.

Hin magnaða Lucy Bronze kom City yfir þegar boltinn datt fyrir fætur hennar eftir hornspyrnu og hún lúðraði honum upp í skeytin fjær. Staðan orðin 1-0 þegar 23 mínútur voru liðnar og var staðan enn þannig er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Lauren Hemp tvöfaldaði forystu City eftir að Mary Earps, markvörður Man Utd, hafði varið fast skot út í teiginn. Hemp tók boltann í fyrsta með vinstri fæti og þaðan fór hann í höfuð varnarmanns United í slá og inn. Staðan orðin 2-0.

Caroline Weir gulltryggði svo sigur City undir lok leiks með stórkostlegri vippu. Lokatölur 3-0 sem þýðir að City fer upp fyrir United í töflunni. 

City er nú með 33 stig, tveimur stigum minna en topplið Chelsea en bæði lið hafa leikið 14 leiki. Man United er í þriðja sæti með 32 stig að loknum fimmtán leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×