Enski boltinn

Guardiola hefur áhyggjur af vítaskyttum Man City

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. vísir/Getty

Ekkert fær stöðvað Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir en það þýðir ekki að Pep Guardiola, stjóri liðsins, sé laus við allar áhyggjur.

Fyrsta mark Man City í 3-0 sigri á Tottenham í gær kom úr vítaspyrnu en þrír leikmanna Man City hafa klúðrað vítaspyrnu í vetur.

„Mér fannst þetta mjög verðskuldaður sigur. Þeir skutu í stöng og það hefði getað breytt leiknum ef þeir hefðu skorað en við spiluðum eins og við vildum spila. Tottenham hefur einstök gæði, við spiluðum vel gegn þeim síðast en töpuðum 2-0,“ sagði Guardiola í leikslok áður en hann viðraði áhyggjur sínar.

„Er Rodri orðin vítaskyttan okkar? Nei. Ég hrífst af hugrekkinu hjá honum að taka vítaspyrnuna en spyrnan var ekki góð. Ég er ekki að grínast. Ég hef áhyggjur. Við þurfum alvöru spyrnusérfræðing með góð gæði. Við verðum að æfa þetta,“ sagði Guardiola.

Eftir vítaklúður Raheem Sterling á dögunum talaði Guardiola um að mögulega væri besta vítaskytta liðsins í markinu, Brasilíumaðurinn Ederson. Bjuggust því margir við að hann færi á vítapunktinn í gær.

„Ég hef áður talað um að Ederson taki vítin. Þið sáuð stoðsendinguna hans, 60 eða 70 metrar. Hann hlýtur þá að skora af 11 metrum,“ sagði Guardiola og vísaði til stoðsendingu Ederson á Ilkay Gundogan í þriðja marki Man City í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×