Enski boltinn

Klopp: Enginn þarf að hafa áhyggjur af mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er enginn uppgjafartónn í Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, þrátt fyrir þrjú töp í röð og mjög erfiða byrjun á árinu 2021.
Það er enginn uppgjafartónn í Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, þrátt fyrir þrjú töp í röð og mjög erfiða byrjun á árinu 2021. Getty/Phil Noble

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fullvissaði stuðningsmenn Liverpool og aðra um það að hann er ekki að fara að hætta sem stjóri liðsins þrátt fyrir slæmt gengi liðsins.

Liverpool hefur tapað þremur leikjum í röð og á ekki lengur raunhæfa möguleika á því að verja Englandsmeistaratitilinn.

Klopp var spurður út í fána sem áhyggjusamir stuðningsmenn Liverpool hafa hengt upp fyrir utan Kop stúkuna á Anfield, honum til stuðnings.

„Þetta er flottur fáni en mér líður ekki eins og ég þurfi einhvern sérstakan stuðning. Það er samt gaman af þessu,“ sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundi fyrir Meistaradeildarleikinn á móti RB Leipzig.

„Ég þarf ekkert frí. Það síðasta sem ég ætla að gera núna er að tala um mín persónulegu mál. Já það hefur lítið gengið hjá okkur en við tökum á því hundrað prósent sem ein fjölskylda,“ sagði Klopp.

„Ég er 53 ára og er búinn að vera þjálfari í þrjátíu ár. Ég get skilið þarna á milli. Auðvitað hefur gengið áhrif en það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér,“ sagði Klopp.

„Skeggið verður grárra, ég sef ekki mikið en ég er fullur af orku. Núna erum við í þessari stöðu og ég sé það sem áskorun,“ sagði Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×