Erlent

Pútín hefur áhuga á stafrænu fundarboði Musks

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín og Elon Musk.
Vladimír Pútín og Elon Musk. Vísir/EPA

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur áhuga á því að ræða við auðjöfurinn Elon Musk, eftir að sá síðarnefndi bauð forsetanum í netspjall. Þetta sagði talsmaður Pútíns í dag en sagði að forsetinn þyrfti frekari upplýsingar.

Málið má rekja til þess að um helgina tísti Musk, sem er ríkasti maður heims, spurningu til Twitterreiknings forsetaembættis Rússlands og spurði hvort forsetinn væri til í spjall í gegnum forritið Clubhouse.

Hann bætti svo við á rússnesku að það væri mikill heiður að fá að tala við Pútín.

Clubhouse er tiltölulega nýr samfélagsmiðill þar sem fólk getur rætt saman á stafrænum sviðum þar sem notendur geta hlustað á samræðurnar. Umræðurnar fara eingöngu fram með hljóði.

Miðillinn er enn sem komið er eingöngu aðgengilegur í tæki Appe en hefur verið að njóta mikillar athygli. Notendur þurfa þó að fá boð frá öðrum aðila sem hefur þegar gerst notandi.

Dimitrí Peskov, talsmaður Pútíns, sagði blaðamönnum í dag að boð Musk væri „mjög áhugavert“. Hann sagðist þó þurfa frekari upplýsingar um hvað Musk væri að leggja til, áður en hægt verður að samþykkja eða hafna boðinu.

Peskov sagði einnig að Pútín, sem starfaði á árum áður hjá KBG, leyniþjónustu Sovétríkjanna, og hefur sagt Internetið á vegum CIA, notaðist ekki sjálfur við samfélagsmiðla.

Musk lýsti því nýverið yfir að hann og rapparinn Kanye West hefðu mælt sér mót á Clubhouse en ekki liggur fyrir hvenær fundur þeirra mun fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×