Erlent

Leita að alda­gömlum eikar­trjám við smíði nýrrar spíru

Atli Ísleifsson skrifar
Frá framkvæmdum við Notre Dame í París í nóvember síðastliðinn.
Frá framkvæmdum við Notre Dame í París í nóvember síðastliðinn. Getty

Áætlað er að þörf sé á allt að þúsund, 150 til 200 ára gömlum eikartrjám, þegar endurskapa skal hina 96 metra háu spíru á dómkirkjunni Notre Dame í París í Frakklandi sem eyðilagðist í stórbrunanum í apríl 2019.

Guardian segir frá því að sérfræðingar þræði nú franska skóga í leit að vænlegum trjám sem nýta mætti við smíðina.

Bruninn olli gríðarlegri eyðileggingu á kirkjunni, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti hét því skömmu eftir brunann að hin 850 ára gamla dómkirkja yrði endurbyggð fyrir árið 2024. Spírunni var bætt við árið 1859, en það var arkitektinn Eugène Viollet-le-Duc sem hannaði hana á sínum tíma.

Macron greindi frá því í júlí síðastliðinn að spíran yrði endurbyggð og myndi líta nákvæmlega eins út og sú sem brann.

Hin 96 metra háa spíra eyðilagðist í brunanum í apríl 2019.Getty/Philippe Wang

Talið er að notast þurfi við allt að þúsund eikartré, milli 150 og 200 ára gömlum. Þau verða að vera bein og stofninn fimmtíu til níutíu sentimetrar í þvermál. Þá þurfa trén að vera milli átta og fjórtán metra há.

Nauðsynlegt er að fella trén fyrir loka marsmánaðar, áður en safinn í vefjum trjánna eykst, til að hægt sé að tryggja rétt rakastig . Reiknað er með að trén þurfi svo að þorna í á hálft annað ár, áður en vinnsla hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×