Með þessari aðgerð vill Facebook svara áströlsku lagafrumvarpi sem myndi skylda tæknirisa á borð við Facebook og Google til þess að borga fyrir fréttaefni.
Lokunin gerir það að verkum að Ástralir geta nú hvorki nálgast Facebook-síður ástralskra né alþjóðlegra fréttamiðla þar sem þær hafa verið „blokkaðar“.
Þá geta þeir sem eru utan Ástralíu ekki nálgast neinar færslur á áströlskum fréttamiðlum; ef til dæmis er farið inn á Facebook-síðu eins stærsta dagblaðs landsins, The Herald Sun, er þar ekki að finna neinar færslur yfirhöfuð.
Yfirvöld í Ástralíu hafa harðlega gagnrýnt lokunina og segja hana sýna glöggt hversu mikil völd tæknirisarnir hafa á markaðnum.
Josh Frydenberg, fjármálaráðherra Ástralíu, segir lokunina geta haft mikil samfélagsleg áhrif en um sautján milljónir Ástrala heimsækja Facebook að minnsta kosti mánaðarlega.
Hann segir ríkisstjórnina staðráðna í að samþykkja lagafrumvarpið og segir yfirvöld vilja sjá Facebook áfram í Ástralíu.
„En mér finnst þessi aðgerð þeirra bæði ónauðsynleg og röng,“ segir Frydenberg.
Yfirvöld í Ástralíu segja lagasetninguna eiga að jafna leikinn á milli hefðbundinna fréttamiðla og tæknirisanna. Líkt og víðar í heiminum hafa hefðbundnir fréttamiðlar í Ástralíu barist í bökkum undanfarin ár.
Ein ástæðan er talin vera sá mikli fjöldi auglýsinga sem seldur er til Facebook og Google en tölurnar sýna að fyrir hverja 100 ástralska dollara sem fyrirtæki verja í stafrænar auglýsingar fer 81 dollari til þessara tveggja fyrirtækja.
Bæði Google og Facebook hafa barist gegn lagasetningunni. Fyrirtækin segja frumvarpið ekki endurspegla hvernig internetið virki og að lögin myndu refsa þeim á ósanngjarnan hátt.
Engu að síður hefur Google nýlega samið um að greiða fyrir fréttir frá þremur af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum Ástralíu.