Erlent

Þrír dánir og tveir særðir eftir skothríð í byssubúð

Samúel Karl Ólason skrifar
AP21051854107066
AP/Sophia Germer

Maður skaut tvo til bana í byssubúð og skotsvæði í úthverfi New Orleans í Bandaríkjunum í gær. Hann er sagður hafa gengið þar inn og hafið skothríð og var árásarmaðurinn sjálfur skotinn til bana þegar starfsmenn og viðskiptavinir verslunarinnar hófu sjálfir skothríð.

Auk þeirra þriggja sem dóu eru tveir særðir, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Þeir eru ekki sagðir alvarlega særðir.

Fógetinn Joseph Lopinto sagði blaðamönnum að ekki væri ljóst hve margir hefðu tekið þátt í skothríðinni og verið væri að púsla saman atburðarásinni. Skothríðin byrjaði inn í versluninni og var árásarmaðurinn á endanum skotinn til bana á bílastæðinu fyrir utan.

AP ræddi við tvo viðskiptavini verslunarinnar sem voru á námskeiði til að fá leyfi til að bera skammbyssur. Þau sögðust hafa heyrt skothríð sem hefði verið hærri og hraðari en skothríðin frá skotsvæði verslunarinnar. þar að auki hefðu þau heyrt öskur.

Þau og aðrir á námskeiðinu leituðu skjóls á meðan starfsmenn verslunarinnar, sem eru flestir sagðir bera skammbyssur í hulstrum, yfirgáfu herbergið og fóru til móts við skothríðina.

Tyrone Russell sagðist hafa séð lík árásarmannsins á bílastæðinu og að bíll sinn hefði sömuleiðis orðið fyrir fjölda skota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×