Körfubolti

Sögðu olnbogaskot Nikitu Telesford mjög ljótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikita Telesford gefur Hildi Björgu Kjartansdóttur olnbogaskot. Skömmu síðar var hún rekin út úr húsi.
Nikita Telesford gefur Hildi Björgu Kjartansdóttur olnbogaskot. Skömmu síðar var hún rekin út úr húsi. stöð 2 sport

Olnbogaskot Nikitu Telesford í leik Skallagríms og Vals í Domino's deild kvenna voru til umræðu í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

Telesford gaf landsliðsmiðherjanum Hildi Björgu Kjartansdóttur tvö olnbogaskot með skömmu millibili í 4. leikhluta og var rekin út úr húsi fyrir það síðara. Hún var svo dæmd í tveggja leikja bann. Telesford missir af leikjum Skallagríms gegn Keflavík og Breiðabliki.

Farið var yfir rimmu þeirra Telesford og Hildar í Domino's Körfuboltakvöldi í gær. Telesford fékk alls fjórar villur fyrir að brjóta á Hildi.

„Hún er alltaf með olnbogana uppi og frekar ofarlega að okkar mati. En ég er ánægð að sjá að dómararnir flautuðu á þetta. Maður hefur oft lent í svona leikmönnum í gegnum tíðina og þeir flauta ekkert endilega á þetta,“ sagði Bryndís Guðmundsdóttir.

Þær Berglind Gunnarsdóttir voru sammála um að olnbogaskotið sem Telesford var rekin af velli fyrir hafi verið ljótt.

„Þetta er mjög ljótt. Olnbogaskot eru óhjákvæmilega partur af körfuboltaleik en þegar olnbogarnir eru farnir að fljúga ofar en axlir og í andlitshæð set ég spurningarmerki við það,“ sagði Berglind.

Sem fyrr sagði fékk Telesford tveggja leikja bann. Kjartan Atli Kjartansson spurði þær Bryndísi og Berglindi hvort það væri hæfileg refsing eða of væg.

„Í agamálum er talað um að ef þú ert viljandi að líkamsmeiða má setja þriggja leikja bann en fyrir gróf brot eru oftar einn eða tveir leikir,“ sagði Berglind og bætti við að brot Telesford teldist því sem gróft.


Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×