Erlent

Skotárásin og rán á hundum Lady Gaga náðist á myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Tveir menn stukku út úr hvítum bíl og réðstu á Fischer.
Tveir menn stukku út úr hvítum bíl og réðstu á Fischer.

Árásin á aðstoðarmann söngkonunnar Lady Gaga, sem var á gangi með hunda hennar, náðist á myndband. Tveir menn á hvítum bíl veittust að aðstoðarmanninum á miðvikudaginn og reyndu að ræna hundum söngkonunnar af honum.

Aðstoðarmaðurinn, Ryan Fischer, streittist á móti og endaði árásin þannig að hann varð fyrir skoti og tveimur af þremur hundum söngkonunnar var rænt.

Fischer var skotinn í bringuna og er enn í alvarlegu ástandi, samkvæmt frétt CNN.

Árásin var fönguð af öryggismyndavél nágranna Fischer og samþykkti sá að veita fjölmiðlum aðgang að upptökunni. Það gerði nágranninn eftir að hann heyrði af því að Gaga-liðar væru sáttir við birtingu þess, samkvæmt frétt TMZ, og er vonast til þess að myndbandið geti hjálpað til við að finna árásarmennina.

Sjá einnig: Aðstoðarmaður Lady Gaga skotinn og hundum hennar rænt

Lögreglan í Los Angeles er einnig með myndbandið til skoðunar.

Vert er að vekja athygli á því að myndbandið gæti vakið óhug lesenda.

Lady Gaga, sem heitir Stefani Joanne Angelina Germanotta, er á Ítalíu við tökur kvikmyndar og hefur Fischer verið með hunda hennar í pössun. Hundarnir Koji og Gustavo enduðu í haldi árásarmannanna en Miss Asia slapp.

Hundarnir þrír eru franskir bolabítar en Lady Gaga hefur heitið hálfri milljón dala til þess sem kemur hundunum aftur til hennar.

Hér má svo sjá frétt ABC þar sem rætt var við nágranna Fischer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×