Erlent

Yfir fjögur hundruð fangar flúðu úr yfir­fullu fangelsi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Croix-des-Bouquets-fangelsið.
Croix-des-Bouquets-fangelsið. AP Photo/Dieu Nalio Chery

Yfir fjögur hundruð fangar flúðu úr fangelsi skammt frá Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, á fimmtudag. Yfirmaður fangelsisins lést í uppþotunum sem leiddu að fjöldaflóttanum.

Samkvæmt yfirvöldum létust 25 manns í óeirðunum, en þeirra á meðal voru vegfarendur sem urðu á vegi fanganna sem flúðu úr Croix-des-Bouquets-fangelsinu.

Einn þeirra sem sluppu var Arnel Joseph, sem var einn alræmdasti gengjaforingi á Haíti. Hann var skotinn til bana af lögreglumönnum þegar hann reyndi að komast yfir vegatálma og gerði sig líklegan til að skjóta á lögreglumennina.

Croix-de-Bouquets-fangelsið var tekið í notkun árið 2012 og var hannað til að hýsa mest 872 fanga. Upplýsingamálaráðherra Haíti, Frantz Exantus, greindi frá því á blaðamannafundi í gær að um 1.500 fangar hafi verið í fangelsinu fyrir fjöldaflóttann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×