Lífið

„Skildi ekki orð af því sem dómararnir sögðu við mig“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rúrik og Renata fara áfram eftir næsta þátt. Það er öruggt. 
Rúrik og Renata fara áfram eftir næsta þátt. Það er öruggt.  @rurikgislason

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er í háhæluðum skóm fyrir utan það þegar systir mín dressaði mig upp sem dragdrottning fyrir grímuball þegar ég var svona tíu ára,“ segir Rúrik Gíslason fyrrverandifótboltamaður sem sló rækilega í gegn í þýska dansþættinum Let‘s Dance á föstudagskvöldið. Hann var á línunni í Brennslunni á FM957 í morgun.

Rúrik tryggði sér svokallað „Wild card“ í þættinum í gær. Það þýðir að ekki er hægt að kjósa hann úr næsta þætti sem fram fer þann 5. mars. Rúrik er því öruggur í næstu umferð. Rúrik í raun vann símakosninguna og er því öruggur áfram.

„Þetta var helvíti sérstakt, mjög gaman og ég bjóst ekki alveg við þessu,“ segir Rúrik sem æfir í átta til níu klukkustundir á dag fyrir útsendingarnar.

„Í gær var síðan fyrsta æfing fyrir næsta þátt og það voru níu klukkutímar. Ég er ekkert að gera mikið annað en djöfull er þetta gaman samt,“ segir Rúrik en dansfélagi hans er Renata Lusin.

„Hún er rússnesk og hefur verið í öðru sæti nokkrum sinnum á heimsmeistaramótinu. Hún er frábær og búin að vera í þessum þáttum áður og er bara mjög skemmtileg. Ég skildi ekki orð af því sem dómararnir sögðu við mig eftir dansinn,“ segir Rúrik og hlær.

„Ég held að þau hafi sagt að ég hafi gert þetta vel. Ég skil ekki alveg allt og var í raun meira stressaður fyrir því, því við vorum búin að æfa dansinn vel. Ég var meira stressaður fyrir því að tala og tjá mig.“

Þó að Rúrik sé öruggur áfram í næsta þætti ætlar hann ekki að gefa neitt eftir.

„Ég hef helvíti gaman af þessu. Ég bý á einhverju hóteli og hef ekkert betra að gera heldur en að vera bara í átta, níu tíma á dag að æfa dans. Þetta er það gaman. Ég bjóst aldrei við því að þetta yrði svona gaman.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×