Frá þessu segir í tilkynningu á vef Hagstofunnar. Þar segir að söluaukninguna síðustu ár megi alfarið rekja til greiðslna á stafrænum skrám í streymi á sama tíma og andvirði af sölu geisladiska og hljómplata hefur dregist saman ár frá ári.
„Nærri lætur að 90% söluandvirðisins árið 2019 stafi af greiðslum fyrir hlustun á tónlistarveitur. Samdráttur í sölu geisladiska og hljómplata kemur einnig fram í sífellt færri útgefnum titlum diska og platna.

Toppurinn var árið 1999
Heildarverðmæti seldra geisladiska, hljómplata og stafrænna skráa árið 2019 nam 802 milljónum króna, þar af voru greiðslur fyrir stafrænar skrár 713 milljónir króna en sala á diskum og plötum 88 milljónir.
Þrátt fyrir talsverða aukningu í sölu hljóðrita undanfarin þrjú ár, sem alfarið er vegna greiðsla til tónlistarveitna, var söluverðmætið reiknað á föstu verðlagi um helmingi minna árið 2019 en þegar best lét árið 1999.

Samkvæmt upplagseftirliti Félags hljómplötuútgefenda nam áætluð sala tónlistarveitunnar Spotify til notenda hér á landi tæpum 700 milljónum króna árið 2019. Það jafngildir því að 87% af heildarsöluverðmæti hljóðrita og allt að 98% af streymdri tónlist hafi farið í gegnum tónlistarveituna eða samanlagt fast að 90% tónlistarsölunnar,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.
