Enski boltinn

Pep segir að City-liðið hafi komist í gegnum helvíti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Manchester City fagna hér marki Gabriel Jesus á móti Úlfunum í gær.
Leikmenn Manchester City fagna hér marki Gabriel Jesus á móti Úlfunum í gær. AP/Carl Recine

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er áfram varkár í yfirlýsingum sínum þrátt fyrir að lið hans hafi í gær náð fimmtán stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester City vann 4-1 sigur á Wolves í gær og er nú með 65 stig eða fimmtán fleiri en Manchester United í öðru sæti.

Þetta var 21. sigur Manchester City í röð í öllum keppnum en liðið er með yfirburðastöðu í deildinni, í góðri stöðu eftir sigur á Gladbach í fyrri leik sextán liða úrslita Meistaradeildarinnar, komið áfram í átta liða úrslit enska bikarsins og í úrslitaleik enska deildabikarsins.

Pep Guardiola hrósaði sínum mönnum fyrir að komast svo vel í gegnum mjög erfiðan hluta tímabilsins með allt leikjaálagið yfir háveturinn.

„Það er vetur í Englandi og hann er algjört helvíti. Við gerðum eitthvað ótrúlegt. Þetta er meira en magnað,“ sagði Pep Guardiola við breska ríkisútvarpið.

„Leikmennirnir eiga skilið hrós frá mér en Liverpool er enn með krúnuna. Við þurfum að ná í öll þessi stig til að vinna ensku úrvalsdeildina,“ sagði Guardiola.

Sigurganga Manchester City hófst með 1-0 útisigri á Southampton 19. desember en City liðið hefur ekki tapað leik síðan að liðið tapaði 2-0 á móti Tottenham 21. nóvember.

City hefur því unnið alla leiki sína undanfarna 77 daga og hefur enn fremur ekki tapað leik í öllum keppnum í meira en hundrað daga.

Næsti leikur City er á móti Manchester United um næstu helgi og þar gæti liðið endanlega gengið frá titilbaráttunnu.

„Við fáum einn eða tvo daga til að hvíla okkur og átta okkur um leið hversu sterkir þeir eru. Þetta verður ótrúlegt tækifæri til að taka risaskref og við ætlum að reyna að ná því,“ sagði Guardiola.

Manchester City hefur skorað 55 mörk í þessum 21 sigurleik í röð og aðeins fengið á sig átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×