Íslenski boltinn

„Stór­lega ýkt og menn ekki á buxunum að slíta neinu sam­starfi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Orri Hlöðversson tók við stjórnartaumunum hjá ÍTF á dögunum.
Orri Hlöðversson tók við stjórnartaumunum hjá ÍTF á dögunum. vísir/sigurjón

Orri Hlöðversson, formaður Íslensk toppfótbolta, segir að sögusagnir um ný hagsmunasamtök tíu liða í efstu deild karla séu stórlega ýktar og hann segir að menn muni halda áfram að vinna saman að betri íslenskum fótbolta.

Vísir greindi frá því í gær að fulltrúar tíu félaga í Pepsi Max-deild karla, öll nema HK og Keflavík, hafi fundað um að stofna ný samtök sem eiga að gæta hagsmuna félaganna í deildinni.

Mikil óánægja er með að tillaga stjórnar KSÍ um að taka upp úrslitakeppni í efstu deild hafi verið felld á ársþingi sambandsins um helgina. Tillaga Fram um að fjölga liðum í efstu deild úr tólf í fjórtán var einnig felld á ársþinginu.

Orri sagði hins vegar frá því í Sportpakkanum í kvöld að honum vitandi væru ekki ný hagsmunasamtök í bígerð.

„Ég get staðfest með vissu að svo er ekki. Ef það er svo þá er það mér algjörlega ókunnugt. Ég hef heyrt þessa frétt og fylgst með umræðunni en ég held að þetta sé stórlega ýkt og menn séu ekki á buxunum að slíta neinu samstarfi,“ sagði Orri. Fundurinn snerist um allt annað.

„Þetta var óformlegur fundur. Einn af mínum félögum í hreyfingunni hafði frumkvæðið að því að boða hann. Við fórum niður eftir og fundarefnið var staðan eftir þingið. Eins og þú veist var tekist á um keppnisfyrirkomulagið í efstu deild karla.“

Hann segir að það sé ekkert leyndarmál að niðurstaða ársþingsins um síðustu helgi séu vonbrigði.

„Útkoman var í raun og veru engin. Staðan verður eins og fyrirkomulagið eins. Í samhenginu vorum við að ræða að það blasir við nýjir sjónvarpssamningar um deildina og þar skiptir miklu mál hvernig fyrirkomulagið er. Við erum að selja vöru og vorum að stilla saman strengina í því. Hvernig við ætlum að stilla upp í þær viðræður.“

„Ég held að það sé vonbrigði að það sé engin niðurstaða. Það er kyrr staða en það er enginn heimsendir. Það er mót og við höfum spilað þetta skemmtilega mót með þessum hætti en mér fannst almennt í hreyfingunni vera mikinn vilji að fjölga leikjum og búa til fjölbreyttara dagskrárefni sem myndi auka virði samningsins.“

„Það eru vonbrigði að það hafi ekki gerst en menn voru ekki sammála um leiðirnar. Menn voru sammála um að fjölga en ekki um leiðirnar. Nú þurfum við að setjast aftur að borðinu og finna lausnir til að flétta þetta saman. Ég veit að það er ekkert svo ýkja langt á milli. Kannski skorti okkur meiri tíma og svigrúm. Við vorum komnir í tíma pressu þannig að ég er mjög bjartsýn að við munum ná saman um þetta og ÍTF mun leggja sitt að mörkum.“

Allt viðtalið við Orra má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

„Þessi samtök eru á ákveðnum krossgötum“

„Samtökin eru ekki eitthvað útibú frá KSÍ,“ segir Orri Vignir Hlöðversson, nýr formaður Íslensks toppfótbolta. Orri var sjálfkjörinn í embættið í síðustu viku eftir að Geir Þorsteinsson dró framboð sitt til baka, ósáttur við að framboð Orra væri álitið lögmætt, en Orri kveðst alls ekki líta svo á að hann hefji sitt starf í mótbyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×