Enski boltinn

Sol­skjær hrósaði sínum mönnum í há­stert að leik loknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær sveif um á bleiku skýi að leik loknum í dag.
Ole Gunnar Solskjær sveif um á bleiku skýi að leik loknum í dag. Getty/Rui Vieira

Ole Gunar Solskjær gat vart verið stoltari af sínum mönnum er hann mætti í viðtal eftir 2-0 sigur Manchester United á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag. Fyrsta tap City síðan í nóvember á síðasta ári.

„Frábærlega. Við byrjuðum leikinn vel fyrstu 10-15 mínútur en það sem eftir lifði fyrri hálfleik vorum við of mikið að verja fenginn hlut. Stundum þegar þú verst gegn sterkum liðum þá skapa þau sér á endanum færi. Við þurfum að komast inn í hálfleikinn til að endurskipuleggja okkur,“ sagði Solskjær beint eftir leik.

„Annað markið var frábært. Luke Shaw sýndi hvað í honum býr. Það var tvísýnt í morgun hvort hann myndi ná leiknum og þurfti að standast þrekpróf til að fá að spila. Þvílík frammistaða.“

„Mér fannst við verjast virkilega vel, svo vorum við líkari okkur sjálfum fram á við. Við urðum að verjast vel. Ekkert lið í heiminum á möguleika gegn Manchester City án þess að spila sem ein liðsheild.“

„Anthony Martial var maður leiksins og það var enn tvísýnna með hvort hann myndi ná leiknum heldur en Luke. Þetta var sá Martial sem við þekkjum. Var ekki viss hvort hann gæti spilað þegar það voru aðeins tveir tímar í leik. Gæti ekki verið ánægðari fyrir hans hönd.“

Þá hrósaði þjálfarinn einnig Dean Henderson sem lék í marki Man United í dag þar sem David De Gea er á Spáni þar sem unnusta hans eignaðist nýverið þeirra fyrsta barn.

„Manchester City er svo langt á undan okkur að við getum ekki hugsað um neitt annað en að vinna okkar leiki og vera betri á þessari leiktíð en þeirri síðustu. Við vorum í þriðja sæti þá svo við viljum lyfta okkur upp töfluna,“ sagði Solskjær að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×