Lífið

Listaverk Margeirs Dire heitins komið heim í portið á Prikinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skýlið á leið í portið.
Skýlið á leið í portið. Prikið

Strætóskýli sem verið hefur við Njarðargötu í Reykjavík hefur fengið nýtt heimili í Bankastræti. Nánar tiltekið á kaffihúsinu Prikinu þar sem því hefur verið komið fyrir í porti staðarins sem snýr út að Ingólfsstræti. Á skýlið er málað listaverk eftir fastagest á Prikinu sem féll frá langt fyrir aldur fram.

Greint er frá tíðindunum á Facebook-síðu Priksins þar sem segir að forsvarsmenn Priksins hafi tekið eftir þessu gamalgróna strætóskýli við Njarðargötu. Skýlið sé merkilegt fyrir þær sakir að það hýsi andlitsmynd málaða af listamanninum Margeiri Dire.

Strætóskýlið gamalgróna með listaverki Margeirs Dire.Prikið

Margeir Dire Sigurðsson var myndlistarmaður sem féll frá rétt tæplega 34 ára í apríl 2019. Hann var þekktur fyrir myndsköpun í mismunandi miðla svo sem vegglistaverk, strigamálverk, teikningar, video, tónlist, hönnun og listræna stjórnun. Margeir hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í allskyns samsýningum og samstarfsverkefnum.

Forsvarsmenn Priksins segja Prikið hafa verið heimavöll Margeirs og sé enn.

„Vöktum við athygli á málefninu og kom upp sú hugmynd að við gætum fengið skýlið til varðveislu í portinu okkar, sem hefur verið óformlegur sýningarsalur veggjalistar í miðborginni undanfarin áratug. Það gekk gríðarlega vel fyrir sig og kunnum við Reykjavíkurborg bestu þakkir fyrir liðleikann og samstarfið,“ segir í færslunni.

Strætóskýlið komið í miðbæinn.Prikið

„Skýlið er komið á sinn heimastað í bili, heimavöllur Margeirs var og er ennþá Prikið Bankastræti. Munum við gæta þess og halda við. Einnig verður sett verður plexiglers-plata yfir álverkið til að halda verkinu öruggu. Komið og fáið ykkur kaffibolla með honum í portinu. Við sjáumst hér og Margeir að eilífu.“

Skýlið hýft upp af flutningabílnum.Prikið
Geoffrey Huntington-Williams (til hægri) ásamt Helga Gestssyni fastakúnna á Prikinu til 45 ára.Prikið





Fleiri fréttir

Sjá meira


×