Körfubolti

Daníel Guðni: Við héldum haus á loka­mínútunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Daníel Guðni var ánægður með sigur Grindvíkinga í kvöld.
Daníel Guðni var ánægður með sigur Grindvíkinga í kvöld. vísir/huldamargrét

„Ég er virkilega ánægður með að klára svona leik, við erum ekki að spila gegn einhverjum aukvisum því þetta er liðið í 3.sæti í deildinni,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur eftir sigur á Þór frá Þorlákshöfn í Domino´s deildinni í kvöld.

„Þeir virtust ekki sakna Adomas Drungilas svo mikið, allavega ekki sóknarlega. Þeir gerðu vel, voru að ráðast á okkur með stóru bakverðina sína gegn okkar litlu. Bæði lið voru að skjóta vel og sóknarleikurinn góður en varnarleikurinn var það sem vantaði uppá.“

Þórsarar byrjuðu af miklum krafti og eftir eina mínútu voru Grindvíkingar 8-0 yfir og Marshall Nelson kominn með tvær villur.

„Við lentum í brasi, við ætluðum auðvitað alls ekki að byrja svona. En ég er ánægður með mína menn að spila leikinn í gegn þrátt fyrir smá hörku hér í restina. Ég vil meina að við höfum haldið haus þessar lokamínútur,“ bætti Daníel við en það var hiti í mönnum undir lokin og oftar en einu sinni var allt við það að sjóða upp úr.

Grindvíkingar hafa verið í vandræðum með sinn varnarleik og það breyttist lítið í kvöld.

„Við erum í vandræðum þegar þeir sækja hratt. Menn eru seinir, það eru kannski að koma einhver léleg skot og við lendum svo í vandræðum í hraðaupphlaupsvörninni. Við þurfum að gera betur og teljum okkur vita hvað við þurfum að gera.“

Kazembe Abif, sem nýlega kom til Grindavíkur, hefur ekki endilega heillað marga stuðningsmenn Grindavíkur en skilaði ágætum tölum í kvöld og virðist vera komast aðeins betur inn í hlutina. Hann skoraði 14 stig og tók 12 fráköst í kvöld.

„Við skorum 105 stig og hann er ekki endilega búinn að skila einhverjum tölum sóknarlega í síðustu leikjum en hefur komið með ákveðna hluti inn varnarlega sem ég fíla. Hann talar, er hreyfanlegur og er að berjast. Það er það sem ég vil.“

„Vissulega vil ég fá meira framlag frá honum í ákveðnum aðgerðum, til dæmis á móti stórum bakvörðum Þórs í kvöld. Hann skilaði tvöfaldri tvennu í kvöld og það er eitthvað sem koma skal. Er hann ekki bara að komast í leikform?“ sagði Daníel Guðni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×