Erlent

Konungur Súlúmanna fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki er ljóst hvert 28 barna konungsins muni nú setjast á valdastól. Goodwill Zwelithini lætur eftir sig sex eiginkonur.
Ekki er ljóst hvert 28 barna konungsins muni nú setjast á valdastól. Goodwill Zwelithini lætur eftir sig sex eiginkonur. Getty/Sandile Ndlovu

Goodwill Zwelithini, konungur Súlúmanna í Suður-Afríki, er látinn, 72 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi þar sem hann hafði notið aðhlynningar að undanförnu vegna einkenna sykursýki.

Hinn 72 ára konungur var leiðtogi stærsta þjóðarbrots Suður-Afríku og hafði mikil áhrif á samfélag sinna manna í landinu. Hann var lagður inn á sjúkrahús í KwaZulu-Natal í síðustu viku vegna veikinda sinna.

Konugurinn er afkomandi Cetshwayo konungs sem leiddi þjóð Súlúmanna í stríðinu við Breta árið 1879. Goodwill Zwelithini settist á konungsstól árið 1968 þegar faðir hans lést.

Í frétt BBC segir að konungurinn Zwelithini hafi í valdatíð sinni lagt áherslu á að vinna að varðveislu menningararfs Súlúmanna. Hann þótti hispurslaus í tali og var sérstaklega gagnrýndur árið 2015 fyrir orð sín um að „útlendingar“ skyldu yfirgefa landið og var þannig kennt um fjölgun árása á erlenda ríkisborgara í landinu. Síðar sagði hann orð sín hafa verið slitin úr samhengi.

Súlúmenn telja um ellefu milljónir, eða um átján prósent suður-afrísku þjóðarinnar.

Ekki er ljóst hvert 28 barna konungsins muni nú setjast á valdastól. Goodwill Zwelithini lætur eftir sig sex eiginkonur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×